Skip to main content
Guð-spjall

Guð-spjall

By Steinunn A Björnsdóttir

Samtal um ýmsa texta Biblíunnar, sögurnar, táknin og túlkunina.
Available on
Apple Podcasts Logo
Google Podcasts Logo
Overcast Logo
Pocket Casts Logo
RadioPublic Logo
Spotify Logo
Currently playing episode

Guð-spjall, 26. þáttur: "Ég er sá sem ég er"

Guð-spjallJan 21, 2021

00:00
23:43
Páskar enn og aftur

Páskar enn og aftur

Spjallað um atburði kyrruviku frá ýmsum sjónarhornum. 

Apr 15, 202241:55
Vatni breytt í vín í þurrum janúar

Vatni breytt í vín í þurrum janúar

Þarf alltaf að vera vín? Brúðkaupið í Kana getur verið erfitt að skilja ef áfengismagnið truflar okkur. Hvað var Jesús að fara með þessu? Og tengist þessi saga Bakkusarátrúnaði? Var Jesús dónalegur við mömmu sína? Og hvaða Guð er það sem við sjáum bara hnakkann á? Þetta og fleira og fleira til umræðu í þætti um texta 2. sunnudags eftir þrettánda. Textarnir eru hér: 

Lexía: 2Mós 33.17-23
Drottinn svaraði Móse: „Einnig þetta, sem þú sagðir, mun ég gera því að þú hefur fundið náð fyrir augum mínum og ég þekki þig með nafni.“ Þá sagði Móse: „Sýndu mér dýrð þína.“ Drottinn svaraði: „Ég mun sjálfur láta allan ljóma minn líða fram hjá þér og ég mun hrópa nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Ég vil líkna þeim sem ég vil líkna og miskunna þeim sem ég vil miskunna.“ Enn fremur sagði hann: „Þú getur ekki séð auglit mitt því að enginn maður fær séð mig og haldið lífi.“ Síðan sagði Drottinn: „Þarna er staður, stattu uppi á klettinum. Þegar dýrð mín fer fram hjá læt ég þig standa í klettaskorunni og hyl þig með lófa mínum þar til ég er farinn fram hjá. Þegar ég tek lófa minn frá muntu sjá aftan á mig. Enginn fær séð auglit mitt.“

Pistill: Róm 12.6-15
Við eigum margvíslegar náðargáfur samkvæmt þeirri náð sem Guð hefur gefið. Sé það spádómsgáfa þá notum hana í samræmi við trúna, sé það þjónustustarf skal gegna því, sé það kennsla skal sinna henni, sá sem hvetja skal geri það, sá sem gefur sé örlátur. Sá sem veitir forstöðu sé kostgæfinn og sá sem vinnur miskunnarverk geri það með gleði.
Elskan sé flærðarlaus. Hafið andstyggð á hinu vonda en haldið fast við hið góða. Verið ástúðleg hvert við annað í bróðurlegum kærleika og keppist um að sýna hvert öðru virðingu. Verið ekki hálfvolg í áhuganum, verið brennandi í andanum. Þjónið Drottni. Verið glöð í voninni, þolinmóð í þjáningunni, staðföst í bæninni. Takið þátt í þörfum heilagra. Leggið stund á gestrisni.
Blessið þá er ofsækja ykkur. Blessið en bölvið ekki. Fagnið með fagnendum, grátið með grátendum.

Guðspjall: Jóh 2.1-11
Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: „Þeir hafa ekki vín.“
Jesús svarar: „Hvað viltu mér, kona? Minn tími er ekki enn kominn.“
Móðir hans sagði þá við þjónana: „Allt það sem hann segir ykkur, það skuluð þið gera.“
Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: „Fyllið kerin vatni.“ Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: „Ausið nú af og færið veislustjóra.“ Þeir gerðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki hvaðan það var en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: „Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara er menn gerast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“
Þetta fyrsta tákn sitt gerði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína og lærisveinar hans trúðu á hann.

Jan 14, 202233:37
Andar í varðhaldi og apokrýfan

Andar í varðhaldi og apokrýfan

Fyrsta Pétursbréf hefur stutta en dularfulla setningu um að Jesús hafi predikað fyrir öndunum í varðhaldi. Tengist það etv. frásögn í apókrýfu Pétursguðspjalli? Og hvað þýðir skírnin? Hver sá dúfuna og heyrði röddina? Það eru engin einföld svör en ótal spurningar í þessu hlaðvarpi um texta fyrsta sunnudags eftir Þrettándann 2022. 

Hér eru textarnir sem eru til umræðu: 

Pistill: 1Pét 3.18-22
Kristur dó fyrir syndir í eitt skipti fyrir öll, réttlátur fyrir rangláta, til þess að geta leitt ykkur til Guðs. Hann var deyddur að líkamanum til en lifandi ger í anda. Þannig steig hann niður til andanna í varðhaldi og prédikaði fyrir þeim. Þeir höfðu óhlýðnast fyrrum, á dögum Nóa, þegar Guð sýndi biðlund og beið meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar – það er átta – sálir í vatni. Þetta er fyrirmyndan skírnarinnar sem nú frelsar ykkur. Hún er ekki hreinsun óhreininda á líkamanum heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists sem steig upp til himna, situr Guði á hægri hönd, og englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.

Guðspjall: Matt 3.13-17
Þá kom Jesús frá Galíleu að Jórdan til Jóhannesar að taka skírn hjá honum. Jóhannes vildi varna honum þess og sagði: „Mér er þörf að skírast af þér og þú kemur til mín!“
Jesús svaraði honum: „Lát það nú eftir. Þannig ber okkur að fullnægja öllu réttlæti.“ Og Jóhannes lét það eftir honum.
En þegar Jesús hafði verið skírður sté hann jafnskjótt upp úr vatninu. Og þá opnuðust himnarnir og hann sá anda Guðs stíga niður eins og dúfu og koma yfir sig. Og rödd kom af himnum: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“

Jan 09, 202232:19
Jólaþáttur 2021: ljósmæður og lítil orð

Jólaþáttur 2021: ljósmæður og lítil orð

Hvað er í jólagruðspjallinu og hvað er ekki. Hvað höldum við að sé þar og hvað hugsum við aldrei um? Og hversu lengi er hægt að ræða um gríska orðið και (kæ eða ke)? Hvað sögðu englarnir? Þetta og ýmislegt annað í jólaþættinum sem vísar talsvert til þáttar nr. 21 um jólagruðspjallið. Mælt með hlustun á hann líka - já og 22 og 23! Gleðileg jól.

Dec 17, 202138:50
Auðmýkt, asnar og aðventa

Auðmýkt, asnar og aðventa

Létt spjall um texta aðventunnar og ýmsa fleiri texta. 

Nov 30, 202125:39
Þetta er auðvitað kolrangt! Spjallað um þýðingaraðferðir og annað skemmtilegt

Þetta er auðvitað kolrangt! Spjallað um þýðingaraðferðir og annað skemmtilegt

Dr. Jón Ásgeir Sigurvinsson er gestur þáttarins að þessu sinni og ræðir við okkur um þýðingaraðferðir. Sérstaklega er rætt um Jesaja og þakkarsálm Hiskia konungs, sem var viðfangsefni doktorsrannsóknar hans. Þar kemur margt forvitnilegt í ljós, t.d. leysir hann þýðingarvanda sem aðrir hafa verið ráðþrota yfir. En hér er textinn sem er til umræðu og það er 16 versið sem hefur valdið mestum heilabrotum. 

9 Sálmur sem Hiskía, konungur Júda, orti þegar hann hafði náð sér af veikindum sínum:
10Ég sagði: Á miðjum aldri verð ég að fara burt,
kvaddur að hliði heljar
þau ár sem ég á eftir.
11Ég sagði: Ég fæ ekki að líta Drottin
á landi lifenda,
fæ ekki framar menn að sjá
meðal þeirra sem byggja heiminn.
12Bústaður minn var rifinn niður,
vafinn saman eins og tjald hjarðmanns.
Þú vafðir líf mitt upp eins og vefari,
skarst mig frá uppistöðunni.
Frá morgni til kvölds þjakar þú mig.
13Allt til morguns hrópaði ég á hjálp,
hann molaði öll mín bein eins og ljón.
14Ég tísti eins og svala,
kurraði sem dúfa,
augu mín mæna til hæða.
Drottinn, ég er aðþrengdur,
bjargaðu mér.
15Hvað get ég sagt?
Hann hefur bæði sagt mér þetta
og gert það sjálfur.
Ég vil ganga í auðmýkt öll æviár mín
þrátt fyrir beiskju lífs míns.
16Drottinn, vegna þessa lifa menn
og því mun líf mitt styrkjast
og þú munt veita mér heilsu og líf.
17Beiskja mín varð mér til góðs,
þú varðveittir líf mitt
frá gröf eyðingarinnar
því að þú varpaðir öllum syndum mínum
aftur fyrir þig.
18Helja þakkar þér ekki,
dauðinn lofar þig ekki,
þeir sem hverfa í gröfina
vona ekki á trúfesti þína.
19Sá einn sem lifir þakkar þér
eins og ég nú í dag.
Feður munu segja börnum sínum
frá trúfesti þinni.
20Drottinn, þér þóknaðist að hjálpa mér,
því skulum vér leika á strengi
við hús Drottins
alla ævidaga vora.

Jun 30, 202146:27
Hafið, ógnin og umvöndunarháttur þátíðar

Hafið, ógnin og umvöndunarháttur þátíðar

Voru lærisveinarnir hræddir við smá golu? Af hverju beitti Páll umvöndunarhætti þátíðar? Og hver er þessi maður að vindur og vatn hlíða honum? Textar sjómannadags skoðaðir í stuttu spjalli um textanna, sjómennsku og sjómannadaginn.


Lexía: Slm 107.1-2, 20-31
Þakkið Drottni því að hann er góður,
því að miskunn hans varir að eilífu.
Svo skulu hinir endurleystu Drottins segja,
þeir er hann hefur leyst úr nauðum
sendi orð sitt og læknaði þá
og bjargaði þeim frá gröfinni.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,
færa honum þakkarfórnir
og segja frá verkum hans með fögnuði.
Þeir sem fóru um hafið á skipum
og ráku verslun á hinum miklu höfum
sáu verk Drottins
og dásemdarverk hans á djúpinu.
Því að hann bauð og þá kom stormviðri
sem hóf upp öldur hafsins.
Þeir hófust til himins, hnigu í djúpið,
og þeim féllst hugur í háskanum.
Þeir skjögruðu og reikuðu eins og drukkinn maður
og kunnátta þeirra kom að engu haldi.
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni
og hann bjargaði þeim úr þrengingum þeirra.
Hann breytti storminum í blíðan blæ
og öldur hafsins lægði.
Þeir glöddust þegar þær kyrrðust
og hann leiddi þá til þeirrar hafnar sem þeir þráðu.
Þeir skulu þakka Drottni miskunn hans
og dásemdarverk hans við mannanna börn,

Pistill: Post 27.13-15, 20-25
Nú rann á hægur sunnanvindur. Hugðust þeir þá hafa ráð þetta í hendi sér, léttu akkerum og sigldu fram með Krít nærri landi. En áður en langt leið skall á af landi ofan fárviðri, hinn illræmdi landnyrðingur. Skipið hrakti og varð því ekki beitt upp í vindinn. Slógum við undan og létum reka.

Dögum saman sá hvorki til sólar né stjarna og ekkert lát varð á ofviðrinu. Tók þá að þrjóta öll von um að við kæmumst af.
Nú höfðu menn lengi einskis matar neytt. Þá stóð Páll upp meðal þeirra og mælti: „Góðir menn, þið hefðuð átt að hlíta mínu ráði og leggja ekki út frá Krít. Þá hefðuð þið komist hjá hrakningum þessum og tjóni. En nú hvet ég ykkur til að vera vonglaðir því enginn ykkar mun lífi týna en skipið mun farast. Því að á þessari nóttu stóð hjá mér engill þess Guðs sem ég heyri til og þjóna og mælti: Óttast þú eigi, Páll, fyrir keisarann átt þú að koma. Guð hefur gefið þér alla þá sem þér eru samskipa. Verið því vonglaðir, góðir menn. Ég treysti Guði, að svo muni fara sem við mig hefur verið mælt.

Guðspjall: Matt 8.23-27
Nú fór Jesús í bátinn og lærisveinar hans fylgdu honum. Þá gerði svo mikið veður á vatninu að bylgjurnar gengu yfir bátinn. En Jesús svaf. Þeir fara til, vekja hann og segja: „Drottinn, bjarga okkur, við förumst.“
Hann sagði við þá: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?“ Síðan reis hann upp, hastaði á vindinn og vatnið og varð stillilogn.
Mennirnir undruðust og sögðu: „Hvílíkur maður er þetta? Jafnvel vindar og vatn hlýða honum.“

Jun 03, 202122:23
Gestrisni er trúariðkun. Saga úr Mamre-lundi

Gestrisni er trúariðkun. Saga úr Mamre-lundi

Ekki er allt sem sýnist þegar þrír menn heimsækja Abraham. Þekkt saga sem segir margt. Kunnug úr fleiri trúarhefðum, túlkuð á ýmsan hátt, meðal annars í tengslum við þrenninguna. Textar þrenningarhátíðar skoðaðir.

Lexía: 1Mós 18.1-5
Abraham sat í tjalddyrum sínum í miðdegishitanum í Mamrelundi er Drottinn birtist honum. Honum varð litið upp og stóðu þá þrír menn frammi fyrir honum. Er hann sá þá hljóp hann til móts við þá úr tjalddyrunum, laut til jarðar og mælti:
„Herra minn, hafi ég fundið náð fyrir augum þínum þá gakk ekki fram hjá þjóni þínum. Mættum við sækja svolítið vatn að þið getið þvegið fætur ykkar og hvílst undir trénu? Ég ætla að ná í matarbita svo að þið getið styrkt ykkur áður en þið haldið lengra úr því að þið fóruð um hjá þjóni ykkar.“
Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“

Pistill: 2Kor 13.11-13
Að öðru leyti, bræður mínir og systur,[ verið glöð. Verið fullkomin, áminnið hvert annað, verið samhuga, lifið saman í friði. Þá mun Guð kærleikans og friðarins vera með ykkur.Heilsið hvert öðru með heilögum kossi. Allir heilagir biðja að heilsa ykkur.
Náðin Drottins Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með yður öllum.

Guðspjall: Matt 11.25-27
Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. Já, faðir, svo var þér þóknanlegt.
Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann.

May 29, 202129:07
Eldfim tunga og erfiðar þýðingar

Eldfim tunga og erfiðar þýðingar

Hvítasunnuundrið, Kinnin og Nasaret, besta veðrið til að þurrka steinbít, hið eilífa vor og mál beggja kynja - hér er komið víða við í spjalli um texta hvítasunnu. 

Lexía: Jl 3.1-5
Síðar mun ég úthella anda mínum yfir alla menn.
Synir yðar og dætur munu spá,
gamalmenni yðar mun dreyma drauma
og ungmenni yðar munu fá vitranir,
jafnvel yfir þræla og ambáttir
mun ég úthella anda mínum á þeim dögum.
Og tákn mun ég láta verða á himni og jörð:
blóð, eld og reykjarstróka.
Sólin verður myrk
og tunglið sem blóð
áður en dagur Drottins kemur, hinn mikli og ógurlegi.
En hver sem ákallar nafn Drottins
verður hólpinn.
Á Síonarfjalli og í Jerúsalem
munu nokkrir lifa af
eins og Drottinn hefur heitið.
Hver sem ákallar nafn Drottins
mun frelsast.

Pistill: Post 2.1-4 (-11)
Þá er upp var runninn hvítasunnudagur voru allir saman komnir á einum stað. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og óveður væri að skella á, og fyllti allt húsið þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvert og eitt þeirra. Allir fylltust heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.

(Í Jerúsalem dvöldust Gyðingar, guðræknir menn, frá öllum löndum undir himninum. Er þetta hljóð heyrðist kom allur hópurinn saman. Þeim brá mjög við því að hver og einn heyrði þá mæla á sína tungu. Menn voru frá sér af undrun og sögðu: „Eru þetta ekki allt Galíleumenn sem hér eru að tala? Hvernig má það vera að við, hvert og eitt, heyrum þá tala okkar eigið móðurmál? Við erum Partar, Medar og Elamítar, við erum frá Mesópótamíu, Júdeu, Kappadókíu, Pontus og Asíu, frá Frýgíu og Pamfýlíu, Egyptalandi og Líbýubyggðum við Kýrene og við sem hingað erum flutt frá Róm. Hér eru bæði Gyðingar og þeir sem tekið hafa trú Gyðinga, Kríteyingar og Arabar. Við heyrum þá tala á tungum okkar um stórmerki Guðs.“)

Guðspjall: Jóh 14.23-31a
Jesús svaraði: „Sá sem elskar mig varðveitir mitt orð og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gera okkur bústað hjá honum. Sá sem elskar mig ekki varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt heldur föðurins sem sendi mig.
Þetta hef ég talað til yðar meðan ég var hjá yður. En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni mun kenna yður allt og minna yður á allt það sem ég hef sagt yður. Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist. Þér heyrðuð að ég sagði við yður: Ég fer burt og kem til yðar. Ef þér elskuðuð mig yrðuð þér glöð af því að ég fer til föðurins því faðirinn er mér meiri. Nú hef ég sagt yður það áður en það verður svo að þér trúið þegar það gerist. Ég mun ekki framar tala margt við yður því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekkert. En heimurinn á að sjá að ég elska föðurinn og geri eins og faðirinn hefur boðið mér.

May 24, 202127:35
 Bænabók Jesú og Boney M

Bænabók Jesú og Boney M

Hér er farið vítt og breytt um Sálmana, bænabókarinnar sem Jesús þekkti. Við skoðum orð og þýðingar, merkingar, hugsanarím og harma og lítum að eins á tengsl þeirra við þekkta þætti í menningu og málfari. Útgangspunkturinn er Sálmur 102 sem hér er birtur: 

Bæn hrjáðs manns þá er hann örmagnast
og úthellir harmi sínum fyrir augliti Drottins.
Drottinn, heyr þú bæn mína,
hróp mitt berist til þín.
Byrg eigi auglit þitt fyrir mér
þegar ég er í nauðum staddur,
hneig eyra þitt að mér,
svara mér skjótt þegar ég kalla.
Dagar mínir líða hjá sem reykur
og bein mín brenna sem í eldi,
hjarta mitt er mornað og þornað sem gras
því að ég gleymi að eta brauð mitt.
Af kveinstöfum mínum
er ég sem skinin bein.
Ég líkist pelíkana í eyðimörkinni,
er eins og ugla í eyðirúst,
ég ligg andvaka,
líkist einmana fugli á þaki.
Fjandmenn mínir smána mig liðlangan daginn;
þeir sem hamast gegn mér nota nafn mitt til formælinga.
Já, ég neyti ösku sem brauðs,
blanda drykk minn tárum
vegna reiði þinnar og bræði
því að þú hófst mig upp og varpaðir mér aftur til jarðar.
Dagar mínir eru sem síðdegisskuggi
og ég visna sem gras.
En þú, Drottinn, ríkir að eilífu
og þín er minnst frá kyni til kyns.
Þú munt rísa upp, sýna Síon miskunn
því að nú er tími til kominn að líkna henni,
já, stundin er runnin upp.
Því að þjónar þínir elska steina Síonar
og harma yfir rústum hennar.
Þá munu þjóðirnar óttast nafn Drottins
og allir konungar jarðarinnar dýrð þína
því að Drottinn byggir upp Síon
og birtist í dýrð sinni.
Hann gefur gaum að bæn hinna allslausu
og hafnar ekki bæn þeirra.
Þetta skal skráð fyrir komandi kynslóð
og þjóð, sem enn er ekki sköpuð, skal lofa Drottin.
Drottinn lítur niður frá sinni heilögu hæð,
horfir frá himni til jarðar
til að heyra andvörp bandingja
og leysa börn dauðans,
til að kunngjöra nafn Drottins á Síon
og lofa hann í Jerúsalem
þegar þjóðir safnast þar saman
og konungsríki til að þjóna Drottni.
Hann bugaði kraft minn á miðri ævi,
fækkaði ævidögum mínum.
Ég segi: „Guð minn, sviptu mér ekki burt á miðri ævi
því að ár þín vara frá kyni til kyns.“
Í öndverðu grundvallaðir þú jörðina
og himinninn er verk handa þinna;
þau munu líða undir lok en þú varir,
þau munu fyrnast sem fat,
þú leggur þau frá þér sem klæði og þau hverfa
en þú ert hinn sami og ár þín fá engan enda.
Börn þjóna þinna munu búa óhult
og niðjar þeirra standa stöðugir fyrir augliti þínu.

May 09, 202132:15
Guð-spjall, 39. þáttur: Andhetjan Abraham, Hagar og heimiliserjur

Guð-spjall, 39. þáttur: Andhetjan Abraham, Hagar og heimiliserjur

Staðgöngumæðrun, þrælahald, afbrýðissemi, talhlýðni og grimmd eru til umræðu í þættinum, ásamt myndarlegu magni af ritskýringu. Lexían á sviðið en tæpt er á pistli og guðspjalli.

Lexía: 1Mós 21.8b-21
Þann dag, er Ísak var vaninn af brjósti, gerði Abraham veislu mikla. Sá þá Sara son Hagar hinnar egypsku, sem hún hafði fætt Abraham, að leik og sagði við Abraham: „Rektu burt ambátt þessa og son hennar því að ekki skal ambáttarsonurinn taka arf með Ísak, syni mínum.“
Abraham féllu þessi orð mjög þungt vegna sonar síns. En Guð sagði við Abraham:
„Lát þér ekki falla þetta þungt vegna sveinsins og ambáttar þinnar. Öllu sem Sara segir skaltu hlýðnast því að afkomendur þínir munu kenndir verða við Ísak. En ambáttarsoninn mun ég einnig gera að þjóð því að hann er afkvæmi þitt.“
Snemma næsta morgun tók Abraham brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, lyfti drengnum á öxl henni og sendi hana á braut. Reikaði hún um eyðimörkina við Beerseba.
Er vatnið þraut úr skinnbelgnum lagði hún drenginn undir runna einn, gekk þaðan og settist skammt undan eins og í örskots fjarlægð því að hún hugsaði: „Ég vil ekki horfa á drenginn deyja.“ Og hún tók að gráta hástöfum.
Þá heyrði Guð grát sveinsins og engill Guðs kallaði til Hagar af himni og sagði:
„Hvað amar að þér, Hagar? Óttast þú ekki því að Guð hefur heyrt grát sveinsins þar sem hann liggur. Stattu upp, reistu drenginn á fætur og leiddu hann þér við hönd því að ég mun gera hann að mikilli þjóð.“
Og Guð lauk upp augum hennar svo að hún sá vatnslind, fór og fyllti vatnsbelginn og gaf drengnum að drekka.
Guð var með sveininum og hann óx og settist að í óbyggðunum og gerðist bogmaður. Hann hafðist við í Paranóbyggðunum og móðir hans tók handa honum konu frá Egyptalandi.

Pistill: 1Jóh 3.19-24
Af þessu munum við þekkja að við erum sannleikans megin og munum geta friðað hjörtu okkar frammi fyrir honum, hvað sem hjarta okkar kann að dæma okkur fyrir. Því að Guð er meiri en hjarta okkar og þekkir allt. Þið elskuðu, ef hjartað dæmir okkur ekki, þá höfum við djörfung til Guðs. Og hvað sem við biðjum um fáum við hjá honum af því að við höldum boðorð hans og gerum það sem honum er þóknanlegt. Og þetta er hans boðorð, að við skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað, samkvæmt því sem hann hefur gefið okkur boðorð um. Sá sem heldur boðorð Guðs er stöðugur í Guði og Guð í honum. Að hann er stöðugur í okkur þekkjum við af andanum sem hann hefur gefið okkur.

Guðspjall: Jóh 8.25-30
Fólkið spurði hann þá: „Hver ert þú?“ Jesús svaraði því: „Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi. Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig er sannorður og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.“
Fólkið skildi ekki að hann var að tala við þá um föðurinn. Því sagði Jesús: „Þegar þér hefjið upp Mannssoninn munuð þér skilja að ég er sá sem ég er og að ég geri ekkert einn og sér heldur tala ég það eitt sem faðirinn hefur kennt mér. Og sá sem sendi mig er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan því ég geri ætíð það sem honum þóknast.“ Þegar hann mælti þetta fóru margir að trúa á hann.

Apr 30, 202136:14
Guð-spjall, 38. þáttur: Réttlæti, átök, villa og trú

Guð-spjall, 38. þáttur: Réttlæti, átök, villa og trú

Textarnir bjóða upp á spjall allt frá málfræði yfir í trúfræði, þjóðfélagsmál og fleira. 

Lexía: Sak 8.16-18
Þetta er það sem ykkur ber að gera:
Segið sannleikann hver við annan
og fellið dóma af sanngirni
og velvilja í hliðum yðar.
Enginn yðar ætli öðrum illt í hjarta sínu
og fellið yður ekki við meinsæri.
Allt slíkt hata ég,
segir Drottinn.

Pistill: Róm 8.9-11
En þið eruð ekki á hennar valdi heldur andans sem í ykkur býr. En sá sem hefur ekki anda Krists er ekki hans. Ef Kristur er í ykkur er líkaminn að sönnu dauður því að syndin er dauð en andinn er líf sakir sýknunar Guðs. Ef andi hans sem vakti Jesú frá dauðum býr í ykkur þá mun hann sem vakti Krist frá dauðum einnig lífga dauðlega líkami ykkar með anda sínum sem í ykkur býr.

Guðspjall: Jóh 15.1-8
„Ég er hinn sanni vínviður og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér sem ber ekki ávöxt sníður hann af og hverja þá sem ávöxt ber hreinsar hann svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hrein vegna orðsins sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér nema hún sé á vínviðnum. Eins getið þér ekki heldur borið ávöxt nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt sem er í mér og ég í honum en án mín getið þér alls ekkert gert. Hverjum sem er ekki í mér verður varpað út eins og greinunum og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt. Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið og yður mun veitast það. Með því vegsamast faðir minn að þér berið mikinn ávöxt og verðið lærisveinar mínir.

Apr 24, 202131:58
Guð-spjall, 37. þáttur: Allt um hirðinn og svolítið um dyrnar

Guð-spjall, 37. þáttur: Allt um hirðinn og svolítið um dyrnar

Hér er rætt um góða og slæma hirða, aðeins um sauðfjárverndina og dálítið um dyr. Guðspjallið er snúið og sumir hafa burtskýrt hluta þess en það er ekki alveg keypt í þessu spjalli. 

Textar vikunnar: 

Lexía: Jer 23.1-6
Vei hirðunum sem leiða sauðina afvega og tvístra hjörðinni sem ég gæti, segir Drottinn. Þess vegna segir Drottinn, Guð Ísraels, um hirðana sem gæta þjóðar minnar: Þér hafið tvístrað sauðum mínum og sundrað þeim og ekki sinnt þeim. Nú mun ég draga yður til ábyrgðar fyrir illvirki yðar, segir Drottinn. En ég mun sjálfur safna saman þeim sem eftir eru af sauðum mínum frá öllum þeim löndum sem ég tvístraði þeim til. Ég mun leiða þá aftur í haglendi þeirra og þeir verða frjósamir og þeim mun fjölga. Ég mun setja hirða yfir þá sem munu gæta þeirra. Þeir munu hvorki skelfast framar né óttast og einskis þeirra verður saknað, segir Drottinn.
Sjá, þeir dagar koma, segir Drottinn, að ég mun láta réttlátan kvist vaxa af ætt Davíðs. Hann mun ríkja sem konungur, breyta viturlega og iðka rétt og réttlæti í landinu. Um hans daga verður Júda bjargað og Ísrael mun búa óhultur. Þetta er nafnið sem honum verður gefið: „Drottinn er réttlæti vort.“

Pistill: Heb 13.20-21
Guð friðarins, sem leiddi Drottin vorn, Jesú, hinn mikla hirði sauðanna,upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála, styrki yður í öllu góðu í hlýðni við vilja sinn. Láti hann allt það verða í oss sem honum er þóknanlegt fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Jóh 10.1-10
„Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem kemur ekki um dyrnar inn í sauðabyrgið heldur fer yfir annars staðar, hann er þjófur og ræningi en sá sem kemur inn um dyrnar er hirðir sauðanna. Dyravörðurinn lýkur upp fyrir honum og sauðirnir heyra raust hans og hann kallar á sína sauði með nafni og leiðir þá út. Þegar hann hefur látið út alla sauði sína fer hann á undan þeim og þeir fylgja honum af því að þeir þekkja raust hans. En ókunnugum fylgja þeir ekki heldur flýja frá honum því þeir þekkja ekki raust ókunnugra.“
Þessa líkingu sagði Jesús þeim. En menn skildu ekki hvað það þýddi sem hann var að tala við þá.
Því sagði Jesús aftur: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ég er dyr sauðanna. Allir þeir sem á undan mér komu eru þjófar og ræningjar enda hlýddu sauðirnir þeim ekki. Ég er dyrnar. Sá sem kemur inn um mig mun frelsast og hann mun ganga inn og út og finna haga. Þjófurinn kemur ekki nema til að stela og slátra og eyða. Ég er kominn til þess að þeir hafi líf, líf í fyllstu gnægð.

Apr 16, 202134:56
Guð-spjall, 36. þáttur: Kristilegur kommúnismi og postullegt spretthlaup.

Guð-spjall, 36. þáttur: Kristilegur kommúnismi og postullegt spretthlaup.

Hinir fyrstu kristnu seldu eigur sínar og gáfu öllum jafnt. Hvað þýðir það fyrir okkur? Og hver vann postullega spretthlaupið að gröfinni og af hverju er sagt frá því? Stutt spjall um texta næsta sunnudags og guðspjall páskadags með viðkomu í fornöld og nútíma. 

Textar 1. sun eftir páska: 

Lexía: Slm 145.1-7
Lofsöngur Davíðs.
Ég tigna þig, Guð minn og konungur,
og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
Ég vegsama þig hvern dag
og lofa nafn þitt um aldur og ævi.
Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur,
veldi hans er órannsakanlegt.
Kynslóð eftir kynslóð vegsamar verk þín,
segir frá máttarverkum þínum
og dýrlegum ljóma hátignar þinnar:
„Ég vil syngja um dásemdir þínar.“
Þær tala um mátt ógnarverka þinna:
„Ég vil segja frá stórvirkjum þínum.“
Þær víðfrægja mikla gæsku þína
og fagna yfir réttlæti þínu.

Pistill: Post 4.32-35
En í þeim fjölda, sem trú hafði tekið, var eitt hjarta og ein sál og enginn þeirra taldi neitt vera sitt er hann átti heldur höfðu menn allt sameiginlegt. Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti og mikil náð var yfir þeim öllum. Eigi var heldur neinn þurfandi meðal þeirra því að allir landeigendur og húseigendur seldu eign sína, komu með andvirðið og lögðu fyrir fætur postulanna. Og sérhverjum var úthlutað eftir því sem hann hafði þörf til.

Guðspjall: Mrk 16.9-14
Þegar Jesús var upp risinn árla hinn fyrsta dag vikunnar birtist hann fyrst Maríu Magdalenu en út af henni hafði hann rekið sjö illa anda. Hún fór og kunngjörði þetta þeim er með honum höfðu verið og hörmuðu nú og grétu.
Þá er þeir heyrðu að Jesús væri lifandi og hún hefði séð hann trúðu þeir ekki.
Eftir þetta birtist Jesús í annarri mynd tveimur þeirra þar sem þeir voru á göngu á leið út í sveit. Þeir sneru við og kunngjörðu hinum en þeir trúðu þeim ekki heldur. Seinna birtist Jesús þeim ellefu þegar þeir sátu til borðs og ávítaði þá fyrir vantrú þeirra og þverúð hjartans, að þeir hefðu ekki trúað þeim er sáu hann upp risinn.

Guðspjall páskadags:

Guðspjall: Jóh 20.1-10
Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma að enn var myrkur og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins sem Jesús elskaði og segir við þá: „Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni og við vitum ekki hvar þeir hafa lagt hann.“
Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn og þeir komu til grafarinnar. Þeir hlupu báðir saman. En hinn lærisveinninn hljóp hraðar, fram úr Pétri, og kom á undan að gröfinni. Hann laut inn og sá línblæjurnar liggjandi en fór samt ekki inn. Nú kom líka Símon Pétur á eftir honum og fór inn í gröfina. Hann sá línblæjurnar liggja þar og sveitadúkinn sem verið hafði um höfuð hans. Sveitadúkurinn lá ekki með línblæjunum heldur sér, samanvafinn á öðrum stað.
Þá gekk einnig inn hinn lærisveinninn sem komið hafði fyrr til grafarinnar. Hann sá og trúði. Þeir höfðu ekki enn skilið ritninguna, að hann ætti að rísa upp frá dauðum. Síðan fóru lærisveinarnir aftur heim til sín.

Apr 09, 202125:04
Guð-spjall um glænýtt Kirkjurit: Hver skráir söguna og hvaða sögu?

Guð-spjall um glænýtt Kirkjurit: Hver skráir söguna og hvaða sögu?

Sérþáttur um nýútkomið Kirkjurit með fjölbreyttu efni. Blaðið sjálft má nálgast hér

Við ræðum við sr. Arnald Mána Finnsson sem situr í ritnefnd ritsins um skráningu sögunnar - um það sem gerðist en hvergi er skráð, til dæmis varðandi samskipti fólks í Samtökunum 78 og Þjóðkirkjunni, um trúarhóp samtakanna, alnæmi og fleira sem litaði meðal annars 10. áratuginn. Kirkjan og kófið er annað umræðuefni, hin eilífa bið eftir nýrra handbók og svo þær viðamiklu skipulagsbreytingar sem fylgja áherslunni á sameiningu prestakalla. 


Apr 02, 202144:33
Guð-spjall, 35. þáttur: Óskalögin: Basans uxar og steinninn stóri

Guð-spjall, 35. þáttur: Óskalögin: Basans uxar og steinninn stóri

Við fögnum árs afmæli Guð-spjalls þáttanna með köku og í sykurvímu ákveðum við að fjalla um einhverja texta sem við höldum upp á og tengjast dymbilviku og páskum, frekar en texta næsta sunnudags. Þetta eru eiginlega óskalögin. Við völdum Sálm 22 og upprisufrásögn Markúsar. 

Sálmur 22

Guð minn, Guð minn! Hví hefur þú yfirgefið mig?
Ég hrópa en hjálp mín er fjarlæg.
„Guð minn!“ hrópa ég um daga en þú svarar ekki,
og um nætur en ég finn enga fró.
Samt ert þú Hinn heilagi
sem ríkir yfir lofsöngvum Ísraels.
Þér treystu feður vorir,
þeir treystu þér og þú hjálpaðir þeim,
hrópuðu til þín og þeim var bjargað,
treystu þér og vonin brást þeim ekki.
En ég er maðkur og ekki maður,
smánaður af mönnum, fyrirlitinn af öllum.
Allir, sem sjá mig, gera gys að mér,
geifla sig og hrista höfuðið.
Hann fól málefni sitt Drottni,
hann hjálpi honum,
og frelsi hann, hafi hann þóknun á honum.
Þú leiddir mig fram af móðurlífi,
lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar.
Til þín var mér varpað úr móðurskauti,
frá móðurlífi ert þú Guð minn.
Ver eigi fjarri mér
því að neyðin er nærri
og enginn hjálpar.
Sterk naut umkringja mig,
Basans uxar slá hring um mig,
glenna upp ginið í móti mér,
sem bráðsólgið, öskrandi ljón.
Ég er eins og vatn sem hellt er út,
öll bein mín gliðnuð í sundur,
hjarta mitt er sem vax,
bráðnað í brjósti mér.
Kverkar mínar eru þurrar sem brenndur leir,
tungan loðir við góminn,
þú leggur mig í duft dauðans.
Hundar umkringja mig,
hópur illvirkja slær hring um mig,
þeir hafa gegnumstungið hendur mínar og fætur.
Ég get talið öll mín bein,
þeir horfa á og hafa mig að augnagamni.
Þeir skipta með sér klæðum mínum,
kasta hlut um kyrtil minn.
En þú, Drottinn, ver ekki fjarri,
styrkur minn, skunda mér til hjálpar.
Frelsa mig undan sverðinu
og líf mitt frá hundunum.
Bjarga mér úr gini ljónsins
og frá hornum villinautanna.
Þú hefur bænheyrt mig.

[...]
Komandi kynslóðum mun sagt verða frá Drottni
og óbornum mun boðað réttlæti hans
því að hann hefur framkvæmt það.

Mark. 16:1-8

Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“
Þær fóru út og flýðu frá gröfinni því ótti og ofboð var yfir þær komið. Þær sögðu engum frá neinu því þær voru hræddar.

Mar 25, 202125:47
Guð-spjall, 34. þáttur: Hvað er sannleikur?
Mar 19, 202133:18
Guð-spjall, 33. þáttur: Matur, líf og gnægð

Guð-spjall, 33. þáttur: Matur, líf og gnægð

Matur er miðlægt þema í textum dagsins, mettun og styrking og gnægð. Og líf. Og út frá því fer spjall okkar í ýmsar áttir, frá sögum úr sveitum yfir í frumkirkjuna og bókina Sapiens og hvort landbúnaðarbyltingin hafi veirð mannkyni böl. 

Lexía: 2Kon 4.42-44
Einu sinni kom maður frá Baal Salísa og færði guðsmanninum tuttugu byggbrauð, frumgróðabrauð. Dálítið af nýju korni hafði hann einnig í poka sínum. Elísa sagði: „Gefðu fólkinu þetta.“ „Hvernig get ég gefið þetta hundrað mönnum?“ svaraði þjónn hans. En hann sagði: „Gefðu fólkinu þetta að eta því að svo segir Drottinn: Þeir munu eta og leifa.“ Síðan bar hann þetta fyrir þá og þeir átu og leifðu eins og Drottinn hafði sagt.

Pistill: Post 27.33-36

Undir dögun hvatti Páll alla til að neyta matar og sagði: „Þið hafið nú þraukað hálfan mánuð fastandi og matarlausir. Það er nú mitt ráð að þið matist. Þess þurfið þið ef þið ætlið að bjargast. En enginn ykkar mun einu hári týna af höfði sér.“ Að svo mæltu tók hann brauð gerði Guði þakkir í allra augsýn, braut það og tók að eta. Urðu nú allir hressari og fóru líka að matast.

Guðspjall: Jóh 6.52-58
Nú deildu Gyðingar hver við annan og sögðu: „Hvernig getur þessi maður gefið okkur líkama sinn að eta?“
Þá sagði Jesús við þá: „Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans þá er ekki líf í yður. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt hefur eilíft líf og ég reisi hann upp á efsta degi. Hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt er í mér og ég í honum. Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og veitir mér líf, svo mun ég láta þann lifa sem mig etur. Þetta er það brauð sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið sem feðurnir átu enda dóu þeir. Sá sem etur þetta brauð mun lifa að eilífu.“

Mar 11, 202128:18
Guð-spjall, 32. þáttur: Jarðhræringar í textum og túlkun óláta í sviðsmynd dagsins

Guð-spjall, 32. þáttur: Jarðhræringar í textum og túlkun óláta í sviðsmynd dagsins

Hér er rætt um Samúelsbækur, versin sem ekki eru inni í textum dagsins og margar sviðsmyndir dregnar upp í anda umræðu vikunnar. Páll postuli kemur einnig við sögu og glannalegar tengingar milli hans, Neró og ofsókna á hendur kristnum. Þá er þeirri spurningu velt upp hvers vegna í ósköpunum Jesús var að amast við því að hægt væri að gera það sem nauðsynlegt var í musterinu. 

Lexía: 2Sam 22.2-7,29-33,36
Drottinn, bjarg mitt og vígi, frelsari minn.
Guð minn, hellubjarg mitt þar sem ég leita hælis,
skjöldur minn og horn hjálpræðis míns,
háborg mín og hæli,
frelsari minn sem bjargar mér undan ofríki.
Lofaður sé Drottinn, hrópa ég
og bjargast frá fjandmönnum mínum.
Holskeflur dauðans umluktu mig,
eyðandi fljót skelfdu mig.
Bönd heljar herptust að mér,
snörur dauðans ógnuðu mér.
Í angist minni kallaði ég á Drottin,
til Guðs míns hrópaði ég.
Hann heyrði hróp mitt í helgidómi sínum,
óp mitt barst honum til eyrna.
Já, þú ert lampi minn, Drottinn.
Drottinn lýsir mér í myrkrinu.
Með þinni hjálp brýt ég borgarveggi,
með Guði mínum stekk ég yfir múra.
Vegur Guðs er lýtalaus,
orð Drottins er áreiðanlegt,
skjöldur er hann öllum sem leita hælis hjá honum.
Hver er Guð nema Drottinn?
Hver er bjarg nema Guð vor?
Guð er mitt trausta vígi,
hann greiddi mér götu sína.

Þú gerðir hjálp þína að skildi mínum,
heit þitt gerði mig mikinn.

Pistill: Róm 16.17-20
Ég minni ykkur, systkin, á að hafa gát á þeim sem vekja sundurþykki og tæla frá þeirri kenningu sem þið hafið numið. Sneiðið hjá þeim. Slíkir menn þjóna ekki Drottni vorum Kristi heldur eigin maga, og með blíðmælum og fagurgala blekkja þeir hjörtu hrekklausra manna. En hlýðni ykkar er alkunn orðin. Því er ég glaður yfir ykkur og vil að þið séuð vitur í því sem gott er en fákunnandi í því sem illt er. Guð friðarins mun bráðlega sundurmola Satan undir fótum ykkar.

Guðspjall: Jóh 2.13-22
Nú fóru páskar Gyðinga í hönd og Jesús hélt upp til Jerúsalem. Þar sá hann í helgidóminum þá er seldu naut, sauði og dúfur og víxlarana sem sátu þar. Þá gerði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra og við dúfnasalana sagði hann: „Burt með þetta héðan. Gerið ekki hús föður míns að sölubúð.“ Lærisveinum hans kom í hug að ritað er: „Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp.“
Ráðamenn Gyðinga sögðu þá við hann: „Hvaða tákn getur þú sýnt okkur um það að þú megir gera þetta?“
Jesús svaraði þeim: „Brjótið þetta musteri og ég skal reisa það á þrem dögum.“
Þá sögðu þeir: „Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!“
En Jesús var að tala um musteri líkama síns. Þegar hann var risinn upp frá dauðum minntust lærisveinar hans að hann hafði sagt þetta, og þeir trúðu ritningunni og orðinu sem Jesús hafði talað.

Mar 05, 202133:20
Guðspjall, 31. þáttur: Tala dýrsins, drottningin af Saba og demónar

Guðspjall, 31. þáttur: Tala dýrsins, drottningin af Saba og demónar

Við förum vítt og breitt í þessum þætti. Opinberunarbókin og tala dýrsins, spekirit og drottningin af Saba sem hitti Salómon (og hve náin voru þau kynni), trú, vantrú og demónar. 

Lexía: Okv 4.23-27
Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru
því að þar eru uppsprettur lífsins.
Haltu munni þínum fjarri fláum orðum
og vörum þínum fjarri lygamálum.
Beindu augum þínum fram á við
og sjónum þínum að því sem fram undan er.
Veldu fótum þínum beina braut,
þá verður ætíð traust undir fótum.
Víktu hvorki til hægri né vinstri,
haltu fæti þínum frá illu.

Pistill: Op 3.10-13
Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma yfir alla heimsbyggðina til að reyna þau sem á jörðinni búa. Ég kem skjótt. Haltu fast því sem þú hefur til þess að enginn taki kórónu þína. Þann er sigrar mun ég gera að máttarstólpa í musteri Guðs míns og hann skal aldrei framar fara þaðan. Á hann mun ég rita nafn Guðs míns og nafn borgar Guðs míns, hinnar nýju Jerúsalem, er kemur af himni ofan frá Guði mínum, og nafnið mitt hið nýja.
Hver sem eyra hefur hann heyri hvað andinn segir söfnuðunum.

Guðspjall: Mrk 9.14-29
Þegar þeir komu til lærisveinanna sáu þeir mannfjölda mikinn kringum þá og fræðimenn að þrátta við þá. En um leið og fólkið sá hann sló þegar felmtri á menn og þeir hlupu til og heilsuðu Jesú. Hann spurði þá: „Um hvað eruð þið að þrátta við þá?“
En einn úr mannfjöldanum svaraði honum: „Meistari, ég færði til þín son minn sem er haldinn illum anda svo að hann getur ekki talað. Hvar sem andinn grípur hann slengir hann honum flötum og hann froðufellir, gnístir tönnum og stirðnar upp. Ég bað lærisveina þína að reka hann út en þeir gátu það ekki.“
Jesús svarar þeim: „Þú vantrúa kynslóð, hversu lengi á ég að vera hjá ykkur? Hversu lengi á ég að umbera ykkur? Færið hann til mín.“
Þeir færðu hann þá til Jesú en um leið og andinn sá hann teygði hann drenginn ákaflega, hann féll til jarðar, veltist um og froðufelldi.
Jesús spurði þá föður hans: „Hve lengi hefur honum liðið svo?“
Faðirinn sagði: „Frá bernsku. Og oft hefur illi andinn kastað honum bæði í eld og vatn til að fyrirfara honum. En ef þú getur nokkuð þá sjá aumur á okkur og hjálpa okkur.“ Jesús sagði við hann: „Ef þú getur! Sá getur allt sem trúir.“
Jafnskjótt hrópaði faðir sveinsins: „Ég trúi, hjálpa þú vantrú minni.“
Nú sér Jesús að mannfjöldi þyrpist að. Þá hastar hann á óhreina andann og segir: „Þú daufdumbi andi, ég býð þér, far út af honum og kom aldrei framar í hann.“
Þá æpti andinn, teygði hann mjög og fór en sveinninn varð sem nár svo að flestir sögðu: „Hann er dáinn.“ En Jesús tók í hönd honum og reisti hann upp og hann stóð á fætur.
Þegar Jesús var kominn inn og orðinn einn með lærisveinum sínum spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“
Jesús mælti: „Þetta kyn verður eigi út rekið nema með bæn.“

Feb 25, 202133:45
Guð-spjall, 30. þáttur: Tekið fast á föstunni og flókið guðspjall

Guð-spjall, 30. þáttur: Tekið fast á föstunni og flókið guðspjall

Þrjátíu þættir! Og samt eins og við höfum ekkert lært. Lexíu og pistil má tengja föstunni en guðspjallið - jahérnahérna! En við gerum okkar besta og tínum að auki til ýmislegt - deilur Páls postula við kjaftfora liðið í Korintu, þýðingar sr. Páls í Selárdal og fólkið sem telur öruggt að Guð varðveiti það þó að það sé sífellt að stíga ofan á höggorma og nöðrur. 

Lexía: Slm 1
Sæll er sá sem eigi fer að ráðum óguðlegra,
eigi gengur götur syndara
og eigi situr meðal háðgjarnra
heldur hefur yndi af leiðsögn Drottins
og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.
Hann er sem tré gróðursett hjá lindum,
það ber ávöxt sinn á réttum tíma
og blöð þess visna ekki.
Allt, sem hann gerir, lánast honum.
Óguðlegum farnast á annan veg,
þeir hrekjast sem hismi í stormi.
Því hvorki standast óguðlegir fyrir dómi
né syndarar í söfnuði réttlátra.
Drottinn vakir yfir vegi réttlátra
en vegur óguðlegra endar í vegleysu.

Pistill: 2Kor 13-5-8
Rannsakið hvort trú ykkar kemur fram í breytni ykkar, prófið ykkur sjálf. Gerið þið ykkur ekki grein fyrir að Jesús Kristur lifir í ykkur? Það skyldi vera að þið stæðust ekki prófið. En ég vona að þið komist að raun um að ég hef staðist prófið. Ég bið til Guðs að þið gerið ekki neitt illt, ekki til þess að það sýni ágæti mitt heldur til þess að þið gerið hið góða. Ég gæti eins sýnst óhæfur. Því að ekki megna ég neitt gegn sannleikanum heldur með hjálp hans.

Guðspjall: Lúk 10.17-20
Nú komu þeir sjötíu og tveir aftur með fögnuði og sögðu: „Drottinn, jafnvel illir andar hlýða okkur þegar við tölum í þínu nafni.“
En Jesús mælti við þá: „Ég sá Satan hrapa af himni sem eldingu. Ég hef gefið yður vald að stíga á höggorma og sporðdreka og yfir öllu óvinarins veldi. Alls ekkert mun gera yður mein. Gleðjist samt ekki af því að illu andarnir hlýða yður, gleðjist öllu heldur af hinu að nöfn yðar eru skráð í himnunum.“

Feb 18, 202131:18
Guð-spjall, 29. þáttur: Æ, þarf að tala um aga?

Guð-spjall, 29. þáttur: Æ, þarf að tala um aga?

Textarnir í föstuinngang eru margþættir og mann gæti grunað að einhverjir vildu helst skera þá við trog. En þó má ýmislegt um þá segja. Til dæmis hvað er sameiginlegt með skurðgoðasafni og Kibbútz samyrkjubúunum.

Lexía: Jes 57.13-15
Lát skurðgoðaflokk þinn bjarga þér
þegar þú hrópar á hjálp.
Stormurinn ber hann burt,
vindurinn tekur hann
en sá sem leitar hælis hjá mér
mun erfa landið
og taka mitt heilaga fjall til eignar.
Einhver segir:
Leggið braut, leggið braut, gerið veginn greiðan,
ryðjið hindrunum úr vegi þjóðar minnar.
Því að svo segir hinn hái og upphafni
sem ríkir ævinlega og ber nafnið Heilagur:
Ég bý á háum og helgum stað
en einnig hjá iðrunarfullum og þjökuðum í anda
til að glæða þrótt hinna lítillátu
og styrkja hjarta þjakaðra.

Pistill: Heb 12.7-13
Þolið aga. Guð fer með ykkur eins og börn sín. Öll börn búa við aga. Ef Guð agar ykkur ekki þá eruð þið ekki börn hans heldur þrælborin. Við bjuggum við aga jarðneskra foreldra og bárum virðingu fyrir þeim. Skyldum við þá ekki miklu fremur lúta aga himnesks föður okkar og lifa? Foreldrar okkar öguðu okkur um fáa daga eftir því sem þeim leist en okkur til gagns agar Guð okkur svo að við verðum heilög eins og hann. Um stundar sakir virðist allur agi að vísu ekki vera gleðiefni heldur hryggðar en eftir á veitir hann þeim er alist hafa upp við hann friðsamt og réttlátt líf.
Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám.Látið fætur ykkar feta beinar brautir til þess að hið fatlaða vindist ekki úr liði en verði heilt.

Guðspjall: Jóh 12.23-36
Jesús svaraði þeim: „Stundin er komin að dýrð Mannssonarins verði opinber. Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr verður það áfram eitt. En ef það deyr ber það mikinn ávöxt. Sá sem elskar líf sitt glatar því en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi mun varðveita það til eilífs lífs. Sá sem þjónar mér fylgi mér eftir og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér mun faðirinn heiðra.
Nú er sál mín skelfd og hvað á ég að gera, á ég að segja: Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, ég er kominn til þess að mæta þessari stundu: Faðir, ger nafn þitt dýrlegt!“
Þá kom rödd af himni: „Ég hef gert það dýrlegt og mun enn gera það dýrlegt.“
Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: „Engill var að tala við hann.“
Jesús svaraði: „Þessi rödd kom ekki mín vegna heldur yðar vegna. Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað. Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu mun ég draga alla til mín.“ Þetta sagði hann til að gefa til kynna með hvaða hætti hann ætti að deyja.
Mannfjöldinn svaraði honum: „Lögmálið segir okkur að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?“ Þá sagði Jesús: „Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið meðan þér hafið ljósið svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri veit ekki hvert hann fer. Trúið á ljósið meðan þér hafið ljósið svo að þér verðið börn ljóssins.“Þetta mælti Jesús, fór burt og duldist.

Feb 11, 202129:04
Guð-spjall, 28. þáttur: Vá, það eru konur í Biblíunni!

Guð-spjall, 28. þáttur: Vá, það eru konur í Biblíunni!

Vissir þú að fyrsti Evrópubúi sem tók kristni var kona? Veistu hvað hún hét? Biblían, konurnar og köllunin er þema þessa þáttar sem skoðar texta 2. su. í níuviknaföstu sem jafnframt er Biblíudagurinn.

Textar dagsins: 

Lexía: Jes 48.16-19
Komið til mín og heyrið þetta:
Frá upphafi hef ég aldrei talað í leyndum
og frá því þetta varð hef ég verið hér.
Nú hefur Drottinn Guð sent mig og anda sinn.
Svo segir Drottinn, lausnari þinn,
Hinn heilagi Ísraels:
Ég er Drottinn, Guð þinn,
sem kenni þér það sem gagnlegt er,
leiði þig þann veg sem þú skalt ganga.
Aðeins ef þú hefðir gefið gaum að boðum mínum
væri hamingja þín sem fljót
og réttlæti þitt eins og öldur hafsins,
niðjar þínir væru sem sandur
og börn þín eins og sandkorn.
Nafn þeirra væri hvorki afmáð
né því eytt fyrir augliti mínu.

Pistill: Post 16.9-15
Um nóttina birtist Páli sýn: Maður nokkur makedónskur stóð hjá honum og bað hann: „Kom yfir til Makedóníu og hjálpa okkur!“ En jafnskjótt og hann hafði séð þessa sýn leituðum við færis að komast til Makedóníu þar sem við skildum að Guð hafði kallað okkur til þess að flytja þeim fagnaðarerindið.

Nú lögðum við út frá Tróas, sigldum beint til Samóþrake en daginn eftir til Neapólis og þaðan til Filippí. Hún er helsta borg í þessum hluta Makedóníu, rómversk nýlenda. Í þeirri borg dvöldumst við nokkra daga.Hvíldardaginn gengum við út fyrir hliðið að á einni en þar hugðum við vera bænastað. Settumst við niður og töluðum við konurnar sem voru þar saman komnar. Kona nokkur úr Þýatíruborg, sem sótti samkundu Gyðinga, Lýdía að nafni, er verslaði með purpura, hlýddi á. Opnaði Drottinn hjarta hennar og hún tók við því sem Páll sagði. Hún var skírð og heimili hennar og hún bað okkur: „Gangið inn í hús mitt og dveljist þar fyrst þið teljið mig trúa á Drottin.“ Þessu fylgdi hún fast fram.

Guðpjall: Jóh 4.27-30, 39-43
Í sama bili komu lærisveinar hans og furðuðu sig á því að hann var að tala við konu. Þó sagði enginn: „Hvað viltu?“ eða: „Hvað ertu að tala við hana?“
Nú skildi konan eftir skjólu sína, fór inn í borgina og sagði við menn: „Komið og sjáið mann er sagði mér allt sem ég hef gert. Skyldi hann vera Kristur?“ Þeir fóru úr borginni og komu til hans.
Margir Samverjar úr þessari borg trúðu á hann vegna orða konunnar sem vitnaði um það að hann hefði sagt henni allt sem hún hafði gert.Þegar því Samverjarnir komu til hans báðu þeir hann að staldra við hjá sér. Var hann þar um kyrrt tvo daga.
Og miklu fleiri tóku trú þegar þeir heyrðu hann sjálfan. Þeir sögðu við konuna: „Það er ekki lengur sakir orða þinna að við trúum því að við höfum sjálfir heyrt hann og vitum að hann er sannarlega frelsari heimsins.“


Feb 05, 202129:21
Guð-spjall, 27. þáttur: Er allt hégómi? Eða bara röng þýðing? Og hver er ávinningurinn af stritinu?

Guð-spjall, 27. þáttur: Er allt hégómi? Eða bara röng þýðing? Og hver er ávinningurinn af stritinu?

Predikarinn mætir með sínar þekktustu setningar. Allt er hégómi, aumasti hégómi - eða hvað? Við köfum í það og kíkjum svo á aðra texta næsta sunnudags. "Hver er ávinningurinn?" er etv. hin sameiginlegi þráður en svörin misjöfn. Já, og svo er hann Páll postuli eitthvað að tala um skít. Svona kemur margt á óvart þegar kafað er í texta. 

Textar dagsins:

Lexía: Préd 1.1-10
Orð prédikarans, sonar Davíðs, konungs í Jerúsalem.
Aumasti hégómi, segir prédikarinn,
aumasti hégómi, allt er hégómi.
Hvaða gagn hefur maðurinn af öllu erfiði sínu
sem hann streitist við undir sólinni?
Ein kynslóð fer, önnur kemur
en jörðin stendur að eilífu.
Og sólin rennur upp og sólin gengur undir
og hraðar sér aftur til samastaðar síns
þar sem hún rennur upp.
Vindurinn gengur til suðurs
og snýr sér til norðurs,
hann snýr sér og snýr sér
og hringsnýst á nýjan leik.
Allar ár renna í sjóinn
en sjórinn fyllist ekki.
Þangað sem árnar renna
munu þær ávallt renna.
Allt er sístritandi,
enginn maður fær því með orðum lýst,
augað verður aldrei satt af að sjá
og eyrað verður aldrei mett af að heyra.
Það sem hefur verið mun verða
og það sem gerst hefur mun enn gerast
og ekkert er nýtt undir sólinni.
Sé nokkuð til er um verði sagt:
Þetta er nýtt,
þá hefur það orðið fyrir löngu,
fyrir okkar tíma.

Pistill: Fil 3.7-14
En það sem var mér ávinningur met ég nú vera tjón sakir Krists. Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp til þess að ég geti áunnið Krist og reynst vera í honum, ekki sakir eigin réttlætis, sem fæst af hlýðni við lögmálið, heldur sakir þess sem trúin á Krist gefur, réttlætið frá Guði með trúnni. – Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans, ég vil þjást með honum og líkjast honum í dauða hans. Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum. Ekki er svo að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú. Systkin, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það. En eitt geri ég. Ég gleymi því sem að baki er en seilist eftir því sem fram undan er og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.

Guðspjall: Matt 19.27-30
Þá sagði Pétur við hann: „Við yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum við hljóta?“
Jesús sagði við þá: „Sannlega segi ég ykkur: Þegar Guð hefur endurnýjað allt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu munuð þið, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels. Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá allt hundraðfalt aftur og öðlast eilíft líf. En margir hinir fyrstu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.“

Jan 28, 202130:17
Guð-spjall, 26. þáttur: "Ég er sá sem ég er"

Guð-spjall, 26. þáttur: "Ég er sá sem ég er"

Hið dularfulla svar Guðs við spurningu Móse um nafnið er til umræðu, Guð sem er, hinn verandi Guð; Birtan, fjallið, breytingin - já - og hvernig stóð á því að Guð var kallaður Jehóva. Hér er tæpt á ýmsu í þætti vikunnar um texta næsta sunnudags.

Lexía: 2Mós 3.1-15
Móse gerðist fjárhirðir hjá tengdaföður sínum, Jetró, presti í Midían. Einu sinni rak hann féð langt inn í eyðimörkina og kom að Hóreb, fjalli Guðs. Þá birtist honum engill Guðs í eldsloga sem stóð upp af þyrnirunna. Hann sá að runninn stóð í ljósum logum en brann ekki.Móse hugsaði: „Ég verð að ganga nær og virða fyrir mér þessa mikilfenglegu sýn. Hvers vegna brennur runninn ekki?“
Þegar Drottinn sá að hann gekk nær til að virða þetta fyrir sér kallaði Guð til hans úr miðjum runnanum og sagði: „Móse, Móse.“ Hann svaraði: „Hér er ég.“ Drottinn sagði: „Komdu ekki nær, drag skó þína af fótum þér því að staðurinn, sem þú stendur á, er heilög jörð.“ Og hann bætti við: „Ég er Guð föður þíns, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.“ Þá huldi Móse andlit sitt því að hann óttaðist að líta Guð.
Þá sagði Drottinn: „Ég hef séð eymd þjóðar minnar í Egyptalandi og heyrt kvein hennar undan þeim sem þrælka hana. Já, ég þekki þjáningu hennar. Ég er kominn niður til að bjarga henni úr greipum Egypta og leiða hana úr þessu landi og upp til lands sem er gott og víðlent, til lands sem flýtur í mjólk og hunangi, til landsvæðis Kanverja, Hetíta, Amoríta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta. En nú er kvein Ísraelsmanna komið til mín og ég hef einnig séð hvernig Egyptar kúga þá. Farðu nú af stað. Ég sendi þig til faraós. Leiddu þjóð mína, Ísraelsmenn, út úr Egyptalandi.“ Móse svaraði Guði: „Hver er ég, að ég fari til faraós og leiði Ísraelsmenn út úr Egyptalandi?“Guð sagði: „Ég mun vera með þér. Þetta skal vera þér tákn þess að ég hef sent þig: Þegar þú hefur leitt þjóðina út úr Egyptalandi munuð þið þjóna Guði á þessu fjalli.“ Móse sagði við Guð: „Ef ég kem til Ísraelsmanna og segi við þá: Guð feðra ykkar hefur sent mig til ykkar, og þeir spyrja mig: Hvert er nafn hans? hverju á ég þá að svara þeim?“ Guð svaraði Móse: „Ég er sá sem ég er.“ Og hann bætti við: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: „Ég er“ sendi mig til ykkar.“ Enn fremur sagði Guð við Móse: „Svo skaltu segja við Ísraelsmenn: Drottinn, Guð feðra ykkar, Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs, sendi mig til ykkar. Þetta er nafn mitt um aldur og ævi, heiti mitt frá kyni til kyns.

Pistill: Opb 22.12-14
Sjá, ég kem skjótt og launin hef ég með mér til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er. Ég er Alfa og Ómega, hinn fyrsti og hinn síðasti, upphafið og endirinn. Sælir eru þeir sem þvo skikkjur sínar. Þeir fá aðgang að lífsins tré og mega ganga um hliðin inn í borgina.

Guðspjall: Matt 17.1-9
Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“
Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“
Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan.
Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“

Jan 21, 202123:43
Guð-spjall, 25. þáttur: Blindan og blygðunarsemin

Guð-spjall, 25. þáttur: Blindan og blygðunarsemin

Blindir menn fá sýn, hórkarlar eru ávíttir. Hér er rætt um texta 2. sunnudags eftir þrettánda, annars vegar um kraftaverk og hins vegar um ávítur Páls postula vegna þess að hinir kristnu karlar í Kórintuborg sóttu vændishús. Eins og áður er komið víða við, orðaleikur úr grískunni skírður og enn og aftur rætt um holdið og líkamann, sarx og soma. 

Pistill: 1Kor 6.12-15a, 18-20
Allt er mér leyfilegt en ekki er allt gagnlegt. Allt er mér leyfilegt en ég má ekki láta neitt fá vald yfir mér. Maturinn er fyrir magann og maginn fyrir matinn en Guð mun hvort tveggja gera að engu. En líkaminn er ekki fyrir saurlífi heldur fyrir Drottin og Drottinn fyrir líkamann.
Guð hefur uppvakið Drottin með mætti sínum og mun á sama hátt uppvekja okkur.
Vitið þið ekki að líkamar ykkar eru limir Krists?
Forðist saurlifnaðinn! Sérhver önnur synd, sem maðurinn drýgir, er fyrir utan líkama hans. En saurlífismaðurinn syndgar á móti eigin líkama. Vitið þið ekki að líkami ykkar er musteri heilags anda sem í ykkur er og þið hafið frá Guði? Þið eigið ykkur ekki sjálf. Þið eruð verði keypt. Vegsamið því Guð með líkama ykkar.


Guðspjall: Matt 9.27-31
Þá er Jesús hélt þaðan fóru tveir blindir menn eftir honum og kölluðu: „Miskunna þú okkur, sonur Davíðs.“
Þegar hann kom heim gengu blindu mennirnir til hans. Jesús spyr þá: „Trúið þið að ég geti gert þetta?“ Þeir sögðu: „Já, Drottinn.“
Þá snart hann augu þeirra og mælti: „Verði ykkur að trú ykkar.“ Og augu þeirra lukust upp. Jesús lagði ríkt á við þá og sagði: „Gætið þess að enginn fái að vita þetta.“ En þeir fóru og víðfrægðu hann í öllu því héraði.

Jan 15, 202130:39
Guð-spjall, 24. þáttur: Þrettándinn, tröllin og vitringarnir.

Guð-spjall, 24. þáttur: Þrettándinn, tröllin og vitringarnir.

Hvað er líkt með Cicero og Biden? Hvar segir að vitringanir hafi verið þrír? Hvernig er best að komast yfir Jórdaná og af hverju var Jesús skírður þar?

Þetta er meðal þess sem við tökum fyrir í þessum þætti þar sem farið er yfir texta þrettándans og texta fyrsta sunnudags eftir þrettánda. 

Guðspjall: Matt 2.1-12
Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“
Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“
Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:
Þú Betlehem, í landi Júda,
ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.
Því að höfðingi mun frá þér koma
sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“
Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst.Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“
Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.
En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.

Guðspjall: Lúk 3.15-17, 21-22
Allir voru nú fullir eftirvæntingar og hugsuðu með sjálfum sér hvort Jóhannes kynni að vera Kristur. En Jóhannes svaraði öllum og sagði: „Ég skíri ykkur með vatni en sá kemur sem mér er máttugri og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gerhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.“
Er allt fólkið lét skírast var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gerði bæn sína, að himinninn opnaðist og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: „Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.“


Jan 07, 202137:31
Guð-spjall, 23. þáttur: Barnamorðin og blessaður þjóðsöngurinn

Guð-spjall, 23. þáttur: Barnamorðin og blessaður þjóðsöngurinn

Af fjölmörgum textum jóla veljum við tvo. Samræður fara vítt um svið og við sögu koma Heródes, Kleópatra og samtímafólk þeirra en einnig Matthías Jochumsson og sálmurinn Lofsöngur sem varð að þjóðsöng - líka vers tvö, sem er aldrei sungið. Áramót eru tími til að rifja upp tímamótaviðburði.

Guðspjall Barnadagsins,  Matt 2.13-18
Þegar vitringarnir voru farnir þá vitrast engill Drottins Jósef í draumi og segir: „Rís upp, tak barnið og móður þess og flý til Egyptalands. Þar skaltu vera uns ég segi þér því að Heródes mun leita barnsins til að fyrirfara því.“
Jósef vaknaði, tók barnið og móður þess um nóttina og fór til Egyptalands. Þar dvöldust þau þangað til Heródes var allur. Það átti að rætast sem Drottinn lét spámanninn segja: „Frá Egyptalandi kallaði ég son minn.“
Þá sá Heródes að vitringarnir höfðu gabbað hann og varð afar reiður, sendi menn og lét myrða öll sveinbörn í Betlehem og nágrenni hennar, tvævetur og yngri en það svaraði þeim tíma er hann hafði komist að hjá vitringunum.
Nú rættist það sem Jeremía spámaður hafði sagt fyrir um:
Rödd heyrist í Rama,
harmakvein, beiskur grátur.
Rakel grætur börnin sín,
hún vill ekki huggast láta,
því að þau eru ekki framar lífs.


Lexía á Gamlársdag: Slm 90.1b-4, 12
Drottinn, þú hefur verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.

Dec 30, 202030:60
Guð-spjall, 22. þáttur: Orðið og upphafið - guðspjall jóladags

Guð-spjall, 22. þáttur: Orðið og upphafið - guðspjall jóladags

Hér er rætt um guðspjall jóladags þar sem farið er aftur í sköpun heims og rætt um hið skapandi orð og skilning Jóhannesar. 


Guðspjall: Jóh 1.1-14
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því.
Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd.
Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.

Dec 18, 202029:43
Guð-spjall, 21. þáttur: Jólaguðspjallið er ekki allt sem sýnist

Guð-spjall, 21. þáttur: Jólaguðspjallið er ekki allt sem sýnist

Í þessum þætti tökum við fyrir jólaguðspjallið sjálft og komumst að því að ranglega sé haft eftir englunum og gistihúsaeigandinn sé fjarri. Það þarf eiginlega að vara fólk við þessum þætti en við mælum samt með honum. 

Guðspjall: Lúk 2.1-14
En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Ágústusi keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gerð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.
Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni sem var þunguð. En meðan þau voru þar kom sá tími er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu af því að eigi var rúm fyrir þau í gistihúsi.
En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir en engillinn sagði við þá: „Verið óhræddir, því, sjá, ég boða yður mikinn fögnuð sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og liggjandi í jötu.“
Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum
og friður á jörðu og velþóknun Guðs yfir mönnum.

Dec 10, 202032:36
Guð-spjall, 20. þáttur: Vonin, biðin og brotnir tímar

Guð-spjall, 20. þáttur: Vonin, biðin og brotnir tímar

Í fyrsta sinn er Barúksbók hluti af textaröðinni. Í textanum er því spáð að Jerúsalem rísi á ný og verði borg réttlætis og friðar. Í Pistlinum úr Jakobsbréfi bíður fólk endurkomunnar og tekur að gæta óþolinmæði á háskalegum tímum þegar pólitík í borginni er á suðupunkti. Og í guðspjallinu er fengist við að lýsa og túlka það sem gerðist. 

Þetta eru þrír mergjaðir textar.

Lexía: Bar 5.1-9
Afklæð þig, Jerúsalem, hryggðar- og hörmungarskikkju þinni,
íklæðstu skarti Guðs dýrðar að eilífu.
Sveipa þig möttli réttlætis Guðs,
set höfuðbúnað dýrðar Hins eilífa á höfuð þér.
Guð mun sýna sérhverri þjóð á jörðu vegsemd þína
því að Guð mun veita þér að eilífu nafnið:
„Friður vegna réttlætis, dýrð sakir guðrækni.“
Rís upp, Jerúsalem, tak þér stöðu á hæðinni,
hef upp augu þín og horfðu í austur.
Lít börn þín sem safnað var saman að boði Hins heilaga,
þau koma úr vestri og austri,
fagnandi yfir að Guð minntist þeirra.
Fótgangandi fóru þau frá þér,
leidd burt af óvinum.
En Guð færir þau aftur til þín
og munu þau borin í vegsemd líkt og í hásæti.
Því að Guð hefur boðið að hvert hátt fjall skuli lækka,
eilífar hæðir jafnast
og dalirnir fyllast og verða að jafnsléttu
svo að Ísrael megi ganga fram í skjóli dýrðar Guðs.
Að boði Guðs munu skógar og öll ilmandi tré
veita Ísrael skugga.
Með ljósi dýrðar sinnar
og með miskunn sinni og réttlæti
mun Guð leiða Ísrael fagnandi heim.

Pistill: Jak. 5.7-11
Þreyið því, systkin, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn! Hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn. Verið þið einnig þolinmóð, styrkið hjörtu ykkar því að Drottinn er í nánd. Kvartið ekki hvert yfir öðru, systkin, svo að þið verðið ekki dæmd. Dómarinn stendur fyrir dyrum. Bræður og systur, takið spámennina til fyrirmyndar sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði. Því við teljum þá sæla sem þolgóðir hafa verið. Þið hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið hvaða lyktir Drottinn gerði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.

Guðspjall: Matt 24.4-14
Jesús svaraði þeim: „Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: Ég er Kristur! og marga munu þeir leiða í villu. Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess að skelfast ekki. Þetta á að verða en endirinn er ekki þar með kominn. Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum. Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
Þá munu menn framselja yður, pína og taka af lífi og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns. Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata. Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu. Og vegna þess að lögleysi magnast mun kærleikur flestra kólna. En sá sem staðfastur er allt til enda verður hólpinn. Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.

Dec 04, 202033:27
Guð-spjall, 19. þáttur: Messías og skyrið

Guð-spjall, 19. þáttur: Messías og skyrið

Adda Steina og Sveinn spjalla um texta fyrsta sunnudags í aðventu með ýmsum útúrdúrum, bæði í þýðingarmálum og þjóðlegum fróðleik.  Textar dagsins eru: 

Lexía: Jes 42.1-4
Sjá þjón minn sem ég styð,
minn útvalda sem ég hef velþóknun á.
Ég legg anda minn yfir hann,
hann mun færa þjóðunum réttlæti.
Hann kallar ekki og hrópar ekki
og lætur ekki heyra rödd sína á strætunum.
Brákaðan reyrinn brýtur hann ekki sundur
og dapran hörkveik slekkur hann ekki.
Í trúfesti kemur hann rétti á.
Hann þreytist ekki og gefst ekki upp
uns hann hefur grundvallað rétt á jörðu
og fjarlæg eylönd bíða boðskapar hans.

Pistill: 1Þess 3.9-13
Hvernig get ég nógsamlega þakkað Guði fyrir alla þá gleði er hann lét ykkur veita mér? Ég bið nótt og dag, heitt og af hjarta, að fá að sjá ykkur og bæta úr því sem áfátt er trú ykkar. Sjálfur Guð og faðir vor og Drottinn vor Jesús greiði veg minn til ykkar. En Drottinn efli ykkur og auðgi að kærleika hvert til annars og til allra eins og ég ber kærleika til ykkar. Þannig styrkir hann hjörtu ykkar svo að þið verðið óaðfinnanleg og heilög í augum Guðs, föður vors, þegar Drottinn vor Jesús kemur ásamt öllum sínum heilögu.

Guðspjall: Mrk 11.1-11
Þegar þeir nálgast Jerúsalem og koma til Betfage og Betaníu við Olíufjallið sendir Jesús tvo lærisveina sína og segir við þá: „Farið í þorpið hér fram undan ykkur. Um leið og þið komið þangað munuð þið finna fola bundinn sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann. Ef einhver spyr ykkur: Hvers vegna gerið þið þetta? þá svarið: Drottinn þarf hans við, hann sendir hann jafnskjótt aftur hingað.“ Þeir fóru og fundu folann bundinn við dyr úti á strætinu og leystu hann. Nokkrir sem stóðu þar sögðu við þá: „Hvers vegna eruð þið að leysa folann?“
Þeir svöruðu eins og Jesús hafði sagt og þeir létu þá fara. Síðan færðu þeir Jesú folann og lögðu á hann klæði sín en hann settist á bak. Og margir breiddu klæði sín á veginn en aðrir lim sem þeir höfðu skorið af trjánum. Þeir sem á undan fóru og eftir fylgdu hrópuðu: „Hósanna. Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins! Blessað sé hið komandi ríki föður vors Davíðs! Hósanna í hæstum hæðum!“ Jesús fór inn í Jerúsalem og í helgidóminn. Þar leit hann yfir allt en þar sem komið var kvöld fór hann til Betaníu með þeim tólf.

Nov 28, 202036:58
Guð-spjall, 18. þáttur: Fæðingarhríðir, forlög og forgengileiki

Guð-spjall, 18. þáttur: Fæðingarhríðir, forlög og forgengileiki

Farið er vítt og breytt í hlaðvarpi vikunnar og ýmislegt dregið fram, þar með hugsanleg breyting á frægum versum úr predikaranum, umræða um fæðingarhríðir náttúrunnar og svo auðvitað dóminn - og þar með forlagahyggju og náð. Jólavísan Jólasveinar einn og átta kemur þarna fyrir og ýmislegt fleira. 

Textar síðasta sunnudags kirkjuársins

Lexía: Jes 65.17-19
Sjá, ég skapa nýjan himin og nýja jörð
og hins fyrra verður ekki minnst framar
og það skal engum í hug koma.
Gleðjist og fagnið ævinlega
yfir því sem ég skapa
því sjá, ég geri Jerúsalem að fögnuði
og íbúa hennar að gleði.
Ég mun gleðjast yfir Jerúsalem
og fagna yfir þjóð minni,
þar mun aldrei framar heyrast grátur og kvein.

Pistill: Róm 8.18-25
Ég lít svo á að þjáningar þessa tíma séu ekki neitt í samanburði við þá dýrð sem á okkur mun opinberast. Því að sköpunin vonar og þráir að Guðs börn verði opinber. Sköpunin er hneppt í ánauð hverfulleikans, ekki sjálfviljug heldur að vilja hans sem bauð svo, í þeirri von að sjálf sköpunin verði leyst úr ánauð sinni undir hverfulleikanum og fái frelsið í dýrðinni með börnum Guðs.
Við vitum að öll sköpunin stynur líka og hefur fæðingarhríðir allt til þessa. Og ekki það eitt, heldur stynjum við sem eigum frumgróða andans einnig með sjálfum okkur meðan við bíðum þeirrar stöðu Guðs barna sem í vændum er með endurlausn líkama okkar. Í þessari von erum við hólpin. Von, sem menn sjá fram komna, er ekki von. Hver vonar það sem hann sér? En ef við vonum það sem við sjáum ekki bíðum við þess með þolinmæði.

Guðspjall: Matt 25.31-46
Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu. Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum og hann mun skilja þær að eins og hirðir skilur sauði frá höfrum. Sauðunum skipar hann sér til hægri handar en höfrunum til vinstri. Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, sem faðir minn á og blessar, og takið við ríkinu sem yður var ætlað frá grundvöllun heims. Því hungraður var ég og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þér hýstuð mig, nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þér komuð til mín.
Þá munu þeir réttlátu segja: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.
Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld sem búinn er djöflinum og árum hans. Því hungraður var ég en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég en þér gáfuð mér ekki að drekka, gestur var ég en þér hýstuð mig ekki, nakinn en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi en ekki vitjuðuð þér mín.
Þá munu þeir svara: Drottinn, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi og hjálpuðum þér ekki? Hann mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður: Allt sem þér gerðuð ekki einum minna minnstu bræðra, það hafið þér ekki heldur gert mér. Og þeir munu fara til eilífrar refsingar en hinir réttlátu til eilífs lífs.“

Nov 19, 202037:13
Guð-spjall, 17. þáttur: Eskatólógía og olía

Guð-spjall, 17. þáttur: Eskatólógía og olía

Sveinn og Steinunn Arnþrúður ræða texta sunnudagsins 15. nóvember á misalvarlegum og léttum nótum.  Þetta er næst síðasti sunnudagur kirkjuársins og við erum komin að dómsdagstextunum. 

Lexía: Sef 3.14-17
Hrópaðu af gleði, Síonardóttir!
Fagnaðu hástöfum, Ísrael!
Þú skalt kætast og gleðjast af öllu hjarta,
dóttirin Jerúsalem.
Drottinn hefur ógilt refsidóminn yfir þér,
hann hefur hrakið fjendur þína á brott.
Konungur Ísraels, Drottinn, er með þér,
engar ófarir þarftu framar að óttast.
Á þeim degi verður sagt við Jerúsalem:
„Óttastu ekki, Síon,
láttu ekki hugfallast.
Drottinn, Guð þinn, er hjá þér,
hin frelsandi hetja.
Hann mun fagna og gleðjast yfir þér,
hann mun hrópa af fögnuði þín vegna eins og á hátíðisdegi
og hugga með kærleika sínum

Pistill: Heb 3.12-14
Gætið þess, bræður og systur, að hafa ekkert illt í hjarta og láta engar efasemdir bægja ykkur frá lifanda Guði. Uppörvið heldur hvert annað hvern dag á meðan enn heitir „í dag“, til þess að enginn forherðist af táli syndarinnar. Því að við erum orðin hluttakar Krists svo framarlega sem við treystum honum staðfastlega allt til enda eins og í upphafi.

Guðspjall: Matt 25.1-13
Enn sagði Jesús: „Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína. Fimm þeirra voru fávísar en fimm hyggnar. Þær fávísu tóku lampa sína en höfðu ekki olíu með sér en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum. Nú dvaldist brúðgumanum og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
Um miðnætti kvað við hróp: Brúðguminn kemur, farið til móts við hann. Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína. En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum. Þær hyggnu svöruðu: Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður. Meðan þær voru að kaupa kom brúðguminn og þær sem viðbúnar voru gengu með honum inn til brúðkaupsins og dyrum var lokað.
Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: Herra, herra, ljúk upp fyrir oss. En hann svaraði: Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.
Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.

Nov 13, 202026:38
Guð-spjall, 16. þáttur: Skuldafangelsi eða fyrirgefning - er það einhver spurning?

Guð-spjall, 16. þáttur: Skuldafangelsi eða fyrirgefning - er það einhver spurning?

Í þessum þætti er vitnað í Aristóteles, Ágústínus (vafasöm fullyrðing?) og Guiliani, talað um trú, rök og tilfinningar og töluna sjö og sjö sinnum sjö. Er mikið mál að fyrirgefa sjö sinnum? Gefa enn einn séns?

Textarnir eru valdir úr textum næsta sunnudags sem er bæði Kristniboðsdagurinn og 22 su. e. þrenn. Þessir voru aðallega til umfjöllunar: 

Pistill: Róm 10.8-17
Hvað segir það þá? „Nálægt þér er orðið, í munni þínum, í hjarta þínu.“ Það er: Orð trúarinnar sem við prédikum. Ef þú játar með munni þínum: Jesús er Drottinn, og trúir í hjarta þínu að Guð hafi upp vakið hann frá dauðum verður þú hólpinn. Með hjartanu er trúað til réttlætis, með munninum játað til hjálpræðis. Ritningin segir: Hver sem á hann trúir verður aldrei til vansæmdar. Í þessu er enginn munur á Gyðingum og Grikkjum. Hinn sami er Drottinn allra, fullríkur fyrir alla sem ákalla hann því að „hver sem ákallar nafn Drottins verður hólpinn“.
En hvernig eiga menn að geta ákallað þann sem þeir trúa ekki á? Og hvernig eiga þeir að trúa á þann sem þeir hafa ekki heyrt um? Og hvernig eiga þeir að heyra án þess að einhver prédiki? Og hver getur prédikað nema hann sé sendur? Svo er og ritað: „Hversu fagurt er fótatak þeirra sem boða fagnaðarerindið um hið góða.“
En ekki tóku allir við fagnaðarerindinu. Jesaja segir: „Drottinn, hver trúði því sem við boðuðum?“ Trúin kemur þannig af því að heyra. Og það sem heyrt er byggist á orðum Krists.

Guðspjall: Matt 18.21-35
Þá gekk Pétur til hans og spurði: „Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?“
Jesús svaraði: „Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.

Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.
Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.
Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum.
Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“

Pistill: Fil 1.3-11
Ég þakka Guði mínum í hvert skipti sem ég hugsa til ykkar og geri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir ykkur öllum vegna samfélags ykkar um fagnaðarerindið frá því þið tókuð við því og allt til þessa. Ég fulltreysti einmitt því að hann, sem byrjaði í ykkur góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.
Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til ykkar allra. Ég hef ykkur í hjarta mínu og þið eigið öll hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og eins er ég er að verja fagnaðarerindið og sannfæra menn um gildi þess. Guð er mér þess vitni hvernig ég þrái ykkur öll með ástúð Krists Jesú.
Og þess bið ég að elska ykkar aukist enn þá meir að þekkingu og dómgreind svo að þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta og verðið hrein og ámælislaus til dags Krists, auðug að þeim réttlætisávexti sem Jesús Kristur kemur til leiðar Guði til lofs og dýrðar.

Nov 05, 202031:06
Guð-spjall, 15. þáttur: Sælir - eða vansælir?

Guð-spjall, 15. þáttur: Sælir - eða vansælir?

Textar Allraheilagramessu eru til umfjöllunar í þessum þætti. Er hægt að vera sæll í erfiðum aðstæðum? Af hverju eru syrgjendur sælir? Steinunn og Sveinn ræða sæluboðin og aðra texta með grímu fyrir andliti og vel sprittuð. 

Textar dagsins:

Lexía: Jes 60.19-21
Sólin verður ekki framar ljós þitt um daga
og tunglið ekki birta þín um nætur
heldur verður Drottinn þér eilíft ljós
og Guð þinn verður þér dýrðarljómi.
Sól þín gengur aldrei til viðar
og tungl þitt minnkar ekki framar
því að Drottinn verður þér eilíft ljós
og sorgardagar þínir á enda.
Allir þegnar þínir eru réttlátir,
þeir munu ævinlega eiga landið.
Þeir eru garður Drottins sem ég hef gróðursett,
handaverk hans
sem birtir dýrð hans.

Pistill: Opb 7.9-12
Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af öllum þjóðum og kynkvíslum, lýðum og tungum, stóð frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu, skrýddur hvítum skikkjum og hafði pálmagreinar í höndum. Og hann hrópaði hárri röddu:
Hjálpræðið kemur frá Guði vorum,
sem í hásætinu situr, og lambinu.
Allir englarnir stóðu kringum hásætið og öldungana og verurnar fjórar. Og þeir féllu fram fyrir hásætinu á ásjónur sínar, tilbáðu Guð og sögðu:
Amen! Lofgjörðin og dýrðin,
viskan og þakkargjörðin,
heiðurinn og mátturinn og krafturinn
sé Guði vorum um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Matt 5.1-12
Þegar Jesús sá mannfjöldann gekk hann upp á fjallið. Þar settist hann og lærisveinar hans komu til hans. Þá hóf hann að kenna þeim og sagði:
„Sælir eru fátækir í anda
því að þeirra er himnaríki.
Sælir eru syrgjendur
því að þeir munu huggaðir verða.
Sælir eru hógværir
því að þeir munu jörðina erfa.
Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu
því að þeir munu saddir verða.
Sælir eru miskunnsamir
því að þeim mun miskunnað verða.
Sælir eru hjartahreinir
því að þeir munu Guð sjá.
Sælir eru friðflytjendur
því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða.
Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir
því að þeirra er himnaríki.
Sæl eruð þér þá er menn smána yður, ofsækja og ljúga á yður öllu illu mín vegna. Gleðjist og fagnið því að laun yðar eru mikil á himnum. Þannig ofsóttu þeir spámennina sem voru á undan yður.

Oct 29, 202026:13
Guð-spjall, 14. þáttur: Skapa fötin manninn? Vondir tímar, víndrykkja og vonin

Guð-spjall, 14. þáttur: Skapa fötin manninn? Vondir tímar, víndrykkja og vonin

Spjall um texta sunnudagsins 25. október. Þar er boð í brúðkaupsveislu, brenna og morð, "þetta eru  vondir tímar" segir postullinn, en samt er megináherslan á boð í veislu þar sem allt er ókeypis - og á veisluklæðin. Sr. Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og sr. Sveinn Valgeirsson spjalla um textana á léttum nótum.

Textarnir sem eru til umræðu: 

Lexía: Jes 55.1-5
Komið, öll sem þyrst eruð, komið til vatnsins
og þér sem ekkert fé eigið, komið,
komið, kaupið korn og etið,
komið, þiggið korn án silfurs
og endurgjaldslaust, bæði vín og mjólk.
Hvers vegna reiðið þér fram silfur fyrir það sem ekki er brauð
og laun erfiðis yðar fyrir það sem ekki seður?
Hlýðið á mig, þá fáið þér hina bestu fæðu
og endurnærist af feitmeti.
Leggið við hlustir og komið til mín,
hlustið, þá munuð þér lifa.
Ég ætla að gera við yður ævarandi sáttmála
og miskunn mín við Davíð mun stöðug standa.
Ég gerði hann að vitni fyrir þjóðirnar,
að höfðingja og stjórnanda þjóðanna.
Sjá, þú munt kveðja til þjóðir sem þú þekkir ekki
og þjóðir, sem ekki þekkja þig, munu skunda til þín
vegna Drottins, Guðs þíns, Hins heilaga Ísraels,
því að hann hefur gert þig vegsamlegan.

Pistill: Ef 5.15-21
Hafið því nákvæma gát á hvernig þið breytið, ekki sem fávís heldur sem vís. Notið hverja stund því að dagarnir eru vondir. Verið því ekki óskynsöm heldur reynið að skilja hver sé vilji Drottins. Drekkið ykkur ekki drukkin af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum og ávarpið hvert annað með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum. Syngið og lofið Drottin af öllu hjarta og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.

Sýnið Kristi lotningu og hvert öðru auðsveipni:

Guðspjall: Matt 22.1-14
Þá tók Jesús enn að segja þeim dæmisögu: „Líkt er um himnaríki og konung einn sem gerði brúðkaup sonar síns. Hann sendi þjóna sína að kalla boðsgestina til brúðkaupsins en þeir vildu ekki koma. Aftur sendi hann aðra þjóna og mælti: Segið boðsgestunum: Veislu mína hef ég búið, uxum mínum og alifé er slátrað og allt er tilbúið, komið í brúðkaupið. En boðsgestirnir skeyttu því ekki. Einn fór á akur sinn, annar til kaupskapar síns en hinir tóku þjóna hans, misþyrmdu þeim og drápu.
Konungur reiddist, sendi út her sinn og lét tortíma morðingjum þessum og brenna borg þeirra. Síðan segir hann við þjóna sína: Brúðkaupsveislan er tilbúin en boðsgestirnir voru ekki verðugir. Farið því út á stræti og torg og bjóðið í brúðkaupið hverjum þeim sem þið finnið. Þjónarnir fóru út á vegina og söfnuðu öllum, sem þeir fundu, vondum og góðum, svo að brúðkaupssalurinn varð alskipaður gestum.
Konungur gekk þá inn að sjá gestina og leit þar mann sem var ekki búinn brúðkaupsklæðum. Hann segir við hann: Vinur, hvernig ert þú hingað kominn og ert ekki í brúðkaupsklæðum? Maðurinn gat engu svarað. Konungur sagði þá við þjóna sína: Bindið hann á höndum og fótum og varpið honum í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna. Því að margir eru kallaðir en fáir útvaldir.“

Oct 22, 202030:50
Guð-spjall, 13. þáttur: Þjáningin, misskilningurinn, túlkunin

Guð-spjall, 13. þáttur: Þjáningin, misskilningurinn, túlkunin

Textar vikunnar fjalla allir um þjáningu en frá mismunandi hliðum: Lexían er úr Jobsbók þar sem þekktur texti fær nýja túlkun, pistillinn fjallar í raun um staðgengil - þ.e. að þjást fyrir aðra og í guðspjallinu mætum við ekkju sem hafði misst einkason sinn. 

Textarnir eru: 

Lexía: Job 19.25-27
Ég veit að lausnari minn lifir
og hann mun síðastur ganga fram á foldu.
Eftir að þessi húð mín er sundurtætt
og allt hold er af mér mun ég líta Guð.
Ég mun líta hann mér til góðs,
augu mín munu sjá hann og engan annan.
Hjartað brennur af þrá í brjósti mér.

Pistill: Ef 3.13-21

Fyrir því bið ég að þið látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum ykkar vegna. Þær eru ykkur til vegsemdar.

Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum, sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu, að hann gefi ykkur af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með ykkur til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum ykkar og þið verða rótfest og grundvölluð í kærleika. Mættuð þið því geta skilið það með öllum heilögum hvílík er víddin og lengdin, hæðin og dýptin í kærleika Krists og fá að sannreyna hann, sem gnæfir yfir alla þekkingu, og ná að fyllast allri Guðs fyllingu.
En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gera langt fram yfir allt það sem vér biðjum eða skynjum, honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú með öllum kynslóðum um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Lúk 7.11-17
Skömmu síðar bar svo við að Jesús hélt til borgar sem heitir Nain og lærisveinar hans fóru með honum og mikill mannfjöldi. Þegar hann nálgaðist borgarhliðið þá var verið að bera út látinn mann, einkason móður sinnar sem var ekkja, og mikill fjöldi úr borginni var með henni. Og er Drottinn sá hana kenndi hann í brjósti um hana og sagði við hana: „Grát þú eigi!“ Og hann gekk að og snart líkbörurnar en þeir sem báru námu staðar. Þá sagði hann: „Ungi maður, ég segi þér, rís þú upp!“ Hinn látni settist þá upp og tók að mæla og Jesús gaf hann móður hans.
En ótti greip alla og þeir vegsömuðu Guð og sögðu: „Spámaður mikill er risinn upp meðal okkar,“ og „Guð hefur vitjað lýðs síns.“
Og þessi fregn um Jesú barst út um alla Júdeu og allt nágrennið.

Sep 24, 202029:41
Guð - spjall, 12. þáttur: Guð og brjóstin, áhyggja og umhyggja

Guð - spjall, 12. þáttur: Guð og brjóstin, áhyggja og umhyggja

Áhyggjur okkar og umhyggja Guðs er viðfangsefni texta næsta sunnudags, 15. su e. þrenningarhátíð.

Lexía: Jes 49.13-16a
Lofsyngið himnar, fagna þú jörð,
þér fjöll, hefjið gleðisöng
því að Drottinn hughreystir þjóð sína
og sýnir miskunn sínum þjáðu.
En Síon segir: „Drottinn hefur yfirgefið mig,
Guð hefur gleymt mér.“
Hvort fær kona gleymt brjóstbarni sínu
að hún miskunni eigi lífsafkvæmi sínu?
Og þó að þær gætu gleymt
þá gleymi ég þér samt ekki.
Ég hef rist þig í lófa mér,

Pistill: 1Pét 5.5c-11
„Guð stendur gegn dramblátum en auðmjúkum veitir hann náð“. Beygið ykkur því undir Guðs voldugu hönd til þess að hann upphefji ykkur á sínum tíma. Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.
Verið algáð, vakið. Óvinur ykkar, djöfullinn, gengur um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim sem hann getur tortímt. Standið gegn honum stöðug í trúnni og vitið að bræður ykkar og systur um allan heim verða fyrir sömu þjáningum. En er þið hafið þjáðst um lítinn tíma mun Guð, sem veitir alla náð og hefur í Kristi kallað ykkur til sinnar eilífu dýrðar, sjálfur fullkomna ykkur, styrkja og gera ykkur öflug. Hans er mátturinn um aldir alda. Amen.

Guðspjall: Matt 6.24-34
Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.
Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufull um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?

Og hví eruð þér áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins sem í dag stendur en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlítil!
Segið því ekki áhyggjufull: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir og yðar himneski faðir veit að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.

Sep 17, 202023:13
Guð-spjall, 11. þáttur: Enn um andann helga og fjölbreytt hlutverk hans, misskilninginn með monogenes og mælskulist fornaldar.
May 28, 202029:11
Guð-spjall, 10. þáttur: Uppstigning, andlausi sunnudagurinn og skandallinn
May 20, 202032:31
Guð-spjall, 9. þáttur: Bænir og bersöglismál

Guð-spjall, 9. þáttur: Bænir og bersöglismál

Steinunn Arnþrúður og Sveinn fara vítt og breitt í þessu spjalli og segja frá ævi spámanns, stofnanda Rómar, þýða áhugaverð orð og velta fyrir sér umræðunni um eðli Krists.

Lexía: Jer 29.11-14a
Því að ég þekki sjálfur þær fyrirætlanir sem ég hef í hyggju með yður, segir Drottinn, fyrirætlanir til heilla en ekki til óhamingju, að veita yður vonarríka framtíð. Þegar þér ákallið mig og komið og biðjið til mín mun ég bænheyra yður. Ef þér leitið mín munuð þér finna mig. Þegar þér leitið mín af öllu hjarta læt ég yður finna mig, segir Drottinn.

Pistill: 1Tím 2.1-6a
Fyrst af öllu hvet ég til að biðja og ákalla Guð og bera fram fyrirbænir og þakkir fyrir alla menn. Biðjið fyrir konungum og öllum þeim sem hátt eru settir til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í guðsótta og siðprýði. Þetta er gott og þóknanlegt Guði, frelsara vorum, sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.

Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús sem gaf sjálfan sig til lausnargjalds fyrir alla.

Guðspjall: Jóh 16.23b-30
[Jesús sagði:] Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður. Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið og þér munuð öðlast svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur að ég tala ekki framar við yður í líkingum heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum. Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki að ég muni biðja föðurinn fyrir yður því sjálfur elskar faðirinn yður þar eð þér hafið elskað mig og trúað að ég sé frá Guði kominn. Ég er kominn í heiminn frá föðurnum. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins.“
Lærisveinar hans sögðu: „Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking. Nú vitum við að þú veist allt og þarft eigi að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum við að þú sért frá Guði kominn.“

May 14, 202021:58
Guð-spjall, 8. þáttur: Steinhjartað, verjandinn og spekin

Guð-spjall, 8. þáttur: Steinhjartað, verjandinn og spekin

Við förum vítt og breitt í umfjöllun um texta dagsins. Það er ýjað að ýmsu um Ezekíel, pirrast og sögur sagðar, glímt við þýðingu á orðinu parakletos og fleira og fleira. 

Textarnir eru hér: 

Lexía: Esk 36.26-28
Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. Þið skuluð búa í landinu sem ég gaf feðrum ykkar og þið skuluð vera mín þjóð og ég skal vera Guð ykkar.

Pistill: Jak 1.17-21
Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami. Hann ákvað að láta orð sannleikans vekja okkur til lífs til þess að við skyldum vera frumgróði sköpunar hans.

Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs. Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir ykkar.

Guðspjall: Jóh 16.5-15
[Jesús sagði:] En nú fer ég til hans sem sendi mig og enginn yðar spyr mig: Hvert fer þú? En hryggð hefur fyllt hjarta yðar af því að ég sagði yður þetta. En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs að ég fari burt því ef ég fer ekki kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer sendi ég hann til yðar. Þegar hann kemur mun hann sanna heiminum hvað er synd og réttlæti og dómur. Syndin er að þeir trúðu ekki á mig, réttlætið að ég fer til föðurins og þér sjáið mig ekki lengur og dómurinn að höfðingi þessa heims er dæmdur.
Enn hef ég margt að segja yður en þér getið ekki skilið það nú. En þegar andi sannleikans kemur mun hann leiða yður í allan sannleikann. Það sem hann segir yður hefur hann ekki frá sjálfum sér heldur mun hann segja yður það sem hann heyrir og kunngjöra yður það sem koma á. Hann mun gera mig dýrlegan því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður. Allt sem faðirinn á er mitt. Því sagði ég að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

May 09, 202030:10
Guð-spjall, 7. þáttur: Útlegð, undarleg boð og ófríður Jesús

Guð-spjall, 7. þáttur: Útlegð, undarleg boð og ófríður Jesús

Steinunn og Sveinn ræða texta næsta sunnudags og missa sig aðeins í ýmsum léttum sögum og vangaveltum um Unorthodox, af hverju Orígenes taldi Jesú ófríðan og af hverju við megum ekki hafa kanadíska þræla.

Textarnir eru þessir: 

Lexía: Jes 43.16-19
Svo segir Drottinn sem lagði veg yfir hafið
og braut yfir hin ströngu vötn,
hann sem leiddi út vagna og hesta
ásamt öflugum her
en þeir liggja kyrrir og rísa ekki aftur,
þeir kulnuðu út eins og hörkveikur.
Minnist hvorki hins liðna
né hugleiðið það sem var.
Nú hef ég nýtt fyrir stafni,
nú þegar vottar fyrir því,
sjáið þér það ekki?
Ég geri veg um eyðimörkina
og fljót í auðninni.

Pistill: Heb 13.12-16
Þess vegna leið Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu. Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans. Því að hér höfum við ekki borg er stendur heldur leitum við hinnar komandi. Með hjálp Jesú skulum við því án afláts færa Guði lofgjörðarfórn, ávöxt vara er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.

Guðspjall: Jóh 16.16-23
Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur og aftur innan skamms munuð þér sjá mig.“
Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: „Hvað er hann að segja við okkur: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig, og: Ég fer til föðurins?“ Lærisveinarnir spurðu: „Hvað merkir þetta: Innan skamms? Við vitum ekki hvað hann er að fara.“
Jesús vissi að þeir vildu spyrja hann og sagði við þá: „Eruð þér að spyrjast á um það að ég sagði: Innan skamms sjáið þér mig ekki og aftur innan skamms munuð þér sjá mig? Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina en heimurinn mun fagna. Þér munuð hryggjast en hryggð yðar mun snúast í fögnuð. Þegar konan fæðir er hún í nauð því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því að maður er í heiminn borinn. Eins eruð þér nú hryggir en ég mun sjá yður aftur og hjarta yðar mun fagna og enginn tekur fögnuð yðar frá yður. Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni mun hann veita yður.

May 01, 202029:28
Guð-spjall, 6. þáttur: Hirðirinn og leiguliðinn

Guð-spjall, 6. þáttur: Hirðirinn og leiguliðinn

Góði hirðirinn, hirðishlutverkið, leiðtoginn - allt þetta er til umræðu í þessu hlaðvarpi sem er styttra en venjulega og alveg passlegt fyrir einn kaffitíma. Njótið vel.

Lexía: Esk 34.11-16, 31
Því að svo segir Drottinn Guð: Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim. Eins og hirðir lítur eftir hjörð sinni þegar hún er á dreif í kringum hann mun ég fylgjast með mínu fé. Ég mun bjarga sauðum mínum frá öllum þeim stöðum sem þeir dreifðust til á hinum dimma og drungalega degi. Ég mun leiða þá burt frá þjóðunum, safna þeim saman úr löndunum og leiða þá heim til síns eigin lands. Ég mun halda þeim í haga á fjöllum Ísraels, í daladrögum og á hverju byggðu bóli í landinu. Ég mun sjálfur halda þeim til beitar í góðu haglendi, beitiland þeirra verður á háfjöllum Ísraels. Þar munu þeir leggjast og ganga í frjósömu haglendi á fjöllum Ísraels. Ég mun sjálfur halda fé mínu til beitar og sjá því fyrir hvíldarstað, segir Drottinn Guð. Ég mun leita þess sem villist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða. Ég mun gæta hins feita og þróttmikla og halda því í haga eins og rétt er.

Þið eruð hjörð mín sem ég held í haga. Ég er Guð ykkar, segir Drottinn Guð.

Pistill: 1Pét 2.21-25
Þetta er köllun ykkar. Því að Kristur leið einnig fyrir ykkur og lét ykkur eftir fyrirmynd til þess að þið skylduð feta í fótspor hans. „Hann drýgði ekki synd og svik voru ekki fundin í munni hans.“ Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega. Hann bar sjálfur syndir okkar á líkama sínum upp á tréð, til þess að við skyldum deyja frá syndunum og lifa réttlætinu. Fyrir hans benjar eruð þið læknuð. Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.

Guðspjall: Jóh 10.11-16
Ég er góði hirðirinn. Góði hirðirinn leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Sá sem er leigður og hvorki er hirðir né á sauðina, hann flýr og yfirgefur sauðina þegar hann sér úlfinn koma og úlfurinn hremmir þá og tvístrar þeim. Enda gætir hann sauðanna aðeins fyrir borgun og er ekkert annt um þá. Ég er góði hirðirinn og þekki mína og mínir þekkja mig eins og faðirinn þekkir mig og ég þekki föðurinn. Ég legg líf mitt í sölurnar fyrir sauðina. Ég á líka aðra sauði sem eru ekki úr þessu sauðabyrgi. Þá ber mér einnig að leiða, þeir munu heyra raust mína. Og það verður ein hjörð, einn hirðir.

Apr 25, 202017:08
Guð-spjall, 5. þáttur: Samfylgd og sannfæring
Apr 17, 202025:29
Gud-spjall, 4. þáttur: Dymbilvika og páskar, þáttur í þremur hlutum.
Apr 09, 202033:00
Guð-spjall, 3. þáttur: Fátæka hafið þið alltaf hjá yður - eða hvað?

Guð-spjall, 3. þáttur: Fátæka hafið þið alltaf hjá yður - eða hvað?

Steinunn Arnþrúður og Sveinn takast á við texta Pálmasunnudags og fara vítt og breytt. Textarnir eru eftirfarandi: 

Lexía: Sak 9.9-10
Fagna mjög, dóttirin Síon,
lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem.
Sjá, konungur þinn kemur til þín.
Réttlátur er hann og sigursæll,
lítillátur og ríður asna,
ungum ösnufola.
Hann útrýmir hervögnum úr Efraím
og víghestum úr Jerúsalem.
Öllum herbogum verður eytt.
Hann mun boða þjóðunum frið
og ríki hans mun ná frá hafi til hafs
og frá Fljótinu
til endimarka jarðar.

Pistill: Fil 2.1-11
Fyrst Kristur veitir kjark, fyrst kærleikur hans uppörvar, fyrst andi hans skapar samfélag, fyrst þar ríkir hlýja og samúð gerið þá gleði mína fullkomna með því að vera einhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál. Gerið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillát og metið hvert annað meira en ykkur sjálf. Lítið ekki aðeins á eigin hag heldur einnig annarra. Verið með sama hugarfari sem Kristur Jesús var.
Hann var í Guðs mynd.
En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd
og varð mönnum líkur.
Hann kom fram sem maður,
lægði sjálfan sig
og varð hlýðinn allt til dauða,
já, dauðans á krossi.
Fyrir því hefur og Guð
hátt upp hafið hann
og gefið honum nafnið,
sem hverju nafni er æðra,
til þess að fyrir nafni Jesú
skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar:
Jesús Kristur er Drottinn.

Guðspjall: Jóh 12.1-16
Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum. Þar var honum búinn kvöldverður og Marta gekk um beina en Lasarus var einn þeirra sem að borði sátu með honum. Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna. Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann: „Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara
og gefin fátækum?“ Ekki sagði hann þetta af því að hann léti sér annt um fátæka heldur af því að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók af því sem í hana var látið. Þá sagði Jesús: „Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns. Fátæka hafið þið ætíð hjá ykkur en mig hafið þið ekki ávallt.“
Nú frétti allur fjöldi Gyðinga af því að Jesús væri í Betaníu og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna heldur og til að sjá Lasarus sem hann hafði vakið frá dauðum. Þá ákváðu æðstu prestarnir að taka einnig Lasarus af lífi því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

Degi síðar frétti hinn mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem. Fólk tók þá pálmagreinar, fór út á móti honum og hrópaði:
„Hósanna!
Blessaður sé sá sem kemur í nafni Drottins,
konungur Ísraels!“
Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:
Óttast ekki, dóttir Síon.
Konungur þinn kemur
og ríður ösnufola.
Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu en þegar Jesús var dýrlegur orðinn minntust þeir þess að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gert þetta fyrir hann.

Apr 04, 202026:50
Guð - spjall, 2. þáttur: Eirormar, æstir menn og ætlunarverk Maríu.
Mar 26, 202024:35
Guð-spjall, I. þáttur: Brauð fyrir alla?

Guð-spjall, I. þáttur: Brauð fyrir alla?

Prestarnir Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir og Sveinn Valgeirsson skoða spjalla um texta næsta sunnudags, sögurnar að baki þeim og hugsanlega túlkun. 

Guðspjall: Jóh 6.1-15
Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn. Mikill fjöldi manna fylgdi honum því þeir sáu þau tákn er hann gerði á sjúku fólki. Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum. Þetta var laust fyrir páskahátíð Gyðinga. Jesús leit upp og sá að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð svo að þessir menn fái mat?“ En þetta sagði hann til að reyna hann því hann vissi sjálfur hvað hann ætlaði að gera. Filippus svaraði honum: „Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki svo að hver fengi lítið eitt.“ Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann: „Hér er piltur sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska en hvað er það handa svo mörgum?“ Jesús sagði: „Látið fólkið setjast niður.“ Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu. Nú tók Jesús brauðin, gerði þakkir og skipti þeim út til þeirra sem þar sátu og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu. Þegar fólkið var orðið mett segir Jesús við lærisveina sína: „Safnið saman leifunum svo ekkert spillist.“ Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem af gengu hjá þeim er neytt höfðu. Þegar menn sáu táknið, sem hann gerði, sögðu þeir: „Þessi maður er sannarlega spámaðurinn sem koma skal í heiminn.“ Jesús vissi nú að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.

Lexía: 5Mós 8.2-3
Hafðu hugfast hvernig Drottinn, Guð þinn, leiddi þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni. Hann gerði það til að beygja þig og reyna þig, til þess að komast að raun um hvað þú hafðir í huga, hvort þú hygðist halda boðorð hans. Hann auðmýkti þig með hungri en gaf þér síðan manna að eta sem hvorki þú né forfeður þínir þekktu. Hann vildi gera þér ljóst að maðurinn lifir ekki á einu saman brauði heldur hverju því sem fram gengur af munni Drottins.

Pistill: Róm 5.1-5
Réttlætt af trú höfum við því frið við Guð sakir Drottins vors Jesú Krists. Hann hefur veitt okkur aðgang að þeirri náð sem við lifum í og við fögnum í voninni um dýrð Guðs. En ekki aðeins það: Við fögnum líka í þrengingum þar eð við vitum að þrengingin veitir þolgæði en þolgæði gerir mann fullreyndan og fullreyndur á vonina. Og vonin bregst okkur ekki. Því að kærleikur Guðs hefur streymt inn í hjörtu okkar með heilögum anda sem okkur er gefinn.

Mar 20, 202023:04